141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[11:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef miklar áhyggjur af því þegar ég hlusta hér á hv. stjórnarþingmenn að þeir hafi fullkomlega misskilið málið og gleymt að lesa það. Það liggur alveg fyrir og segir hér, svo að ég vitni nú í frumvarpið:

„Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“

Ráðherra gerir það, hann bara ákveður það. Við erum með þessu frumvarpi að veita honum heimild til að gera það. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að hann þurfi að senda það til umsagnar hingað og þangað, það breytir engu. Við erum að veita ráðherra heimild til að selja og hann getur farið með hana eins og hann vill. Hann þarf að vísu að eiga samráð við Bankasýsluna. En munið þið að í lögum um Bankasýslu á hún að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum? Hefur núverandi ríkisstjórn farið eftir því? Nei. [Hlátur í þingsal.]