141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[11:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég er á móti 1. gr. Lagt var upp með að þetta frumvarp ætti að einfalda skattkerfið, það ætti að bæta matarmenningu þjóðarinnar — ég er reyndar á móti svoleiðis forsjárhyggju — en hvorugt næst. Það kom fram á fundum hv. efnahags- og viðskiptanefndar að þetta mundi vinna gegn góðum matarsiðum og flækjustigið hefur vaxið alveg gífurlega með þessu.

Svo hefur enginn getað útskýrt fyrir mér af hverju á að setja allt að því eiturlyfjaskatt á sætuefni. Enginn hefur getað sagt mér að sætuefni séu skaðleg. Það eina sem þau gera er að lokka fólk til að drekka gos en þá er það gosið sem er hættulegt en ekki sætuefnið. Það á að fara að setja 42 þús. kr. skatt á hvert kíló af sætuefni.

Ég get engan veginn greitt atkvæði með 1. gr., en (Forseti hringir.) mun sitja hjá við hinar.