141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

skattar og gjöld.

101. mál
[11:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er gert ráð fyrir því og lagt til að 3. gr. frumvarpsins falli brott. Í henni var einmitt gert ráð fyrir því að það fólk sem hafði fengið vaxtabætur á grundvelli gengistryggðra lána vegna gengistryggingar til dæmis, bæði á vexti og höfuðstól, þegar gengistryggingin var felld niður og vextirnir stórlækkaðir ætti ekki að endurgreiða þær vaxtabætur sem það hafði fengið. Hér er gert ráð fyrir að sú regla hverfi á brott þannig að menn eigi sem sagt að endurgreiða þær bætur sem það fékk á grundvelli forsendna sem hafa breyst, hafa horfið. Reyndar var í gildi ákvæði sem sett var fyrir ári um að þetta gilti ekki fyrir 2011 og 2012 þannig að upp kemur mjög merkileg lagaleg staða þar sem þeir sem fengu niðurfellingu á gengistryggingu á þessum tveimur árum halda bótunum en ekki hinir sem fengu niðurfellingu eftir það.