141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[11:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum sem betur fer lögbundið það að á næsta ári er skylt að leggja þessi frumvörp fram þegar um miðjan september með fjárlagafrumvarpinu þannig að það stendur til mikilla bóta. Auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni að við höfum haft lítinn tíma hér en það að verið sé að gera breytingar fram á síðustu stund helgast af því að meiri hlutinn hefur lagt áherslu á að hlusta á sjónarmið stjórnarandstöðunnar og þeirra sem eiga að verða fyrir skattlagningunni og leitast við að mæta þeim sjónarmiðum alveg fram á síðustu stund.

Hvað varðar stimpilgjöldin sem hv. þingmaður spurði um í fyrra andsvari held ég að það sé raunar fyrirkomulag sem við eigum almennt að taka til heildstæðrar endurskoðunar eins og margt annað í okkar umhverfi nú þegar mesta hættan er að baki í ríkisfjármálum. Ég tel að þær hugmyndir sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi í gær með sænska fyrirkomulagið um veðleyfi kynnu til að mynda að vera mjög til þess að auka og bæta samkeppnisskilyrði á fjármálamarkaði að þessu leyti.