141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[11:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þessu ári hafa bankarnir farið að veita hin svokölluðu óverðtryggðu lán. Mjög margir hafa farið í það að endurfjármagna lánsfjármögnun sína með því að færa sig að öllu leyti eða hluta til inn í óverðtryggðu lánin úr verðtryggðu lánunum. Það er út af fyrir sig eðlilegur hlutur. Staðan sem hefur verið uppi er hins vegar sú að bankarnir hafa gert stífari veðkröfur varðandi óverðtryggðu lánin heldur en hin verðtryggðu. Þeir sem hafa minni eignir, eru í mörgum tilvikum með lægri tekjur og er í mjög mörgum tilvikum ungt fólk, hafa því ekki átt þess kost að endurfjármagna sig án þess að þurfa þá að borga stimpilgjald. Í breytingartillögum meiri hlutans núna er horfið frá því hvað varðar næsta ár. Eftir situr sá hópur ungs fólks, tekjuminna fólks, eignaminna fólks, sem hefur farið í endurfjármagnanir á þessu ári en hefur borgað stimpilgjöldin. Það er óréttlátt og það er óskynsamlegt.

Ég hefði talið að það hefði verið eðlilegt að láta þetta gilda líka fyrir árið 2012. Ég hef heyrt því sjónarmiði fleygt að það hafi valdið flækjustigi. Ég gef ekki mikið fyrir það. Það er ekki mikið flækjustig samfara þessu fyrir utan það að þetta frumvarp er allt ein flækja eins og við vitum.

Í öðru lagi er hitt að það hefur verið sagt að þetta kalli á endurgreiðslur. Endurgreiðslukerfi þekkjum við nú í skattkerfinu þannig að það eru heldur ekki rök í málinu. Nú vil ég hvetja hv. formann nefndarinnar, sem ég veit að hefur verið áhugasamur um að breyta þessu fyrirkomulagi, til að endurskoða þetta mál núna milli 2. og 3. umr. og breyta breytingartillögunni þannig að hún gildi líka fyrir árið 2012. Ella mun það virðast óréttlátt frá sjónarhóli þeirra sem hafa farið í gegnum þessa endurfjármögnun. Það verður þannig að þeir sem fara í gegnum endurfjármögnun á næsta ári fá þessa ívilnun en hinir ekki.

Ég held líka að það gæti verið liður í því að létta undir með skuldugum heimilum, skuldugu fólki, tekjuminna fólki og alveg sérstaklega ungu fólki.