141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[11:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og fyrir þá umhyggju sem hann hefur haft með þeim sem eru í þessari stöðu. Hann hefur lagt áherslu á að þetta sé leiðrétt og við höfum hlustað á það og gerðum það raunar þegar í vor þegar málið var inni í efnahags- og viðskiptanefnd og þá lá þessi breyting fyrir. Hefði málið komið til afgreiðslu þá hefði hún strax tekið gildi vegna þess að eins og hv. þingmaður segir er auðvelt að gera hana fram í tímann en flókið og erfitt að gera hana aftur í tímann. Það kallar á endurgreiðslu og aðra slíka hluti. Alltaf þegar breytingar verða í skattkerfinu þýðir það auðvitað að þeir sem fá það eftir að breytingin verður njóta betri stöðu eða verri eftir atvikum heldur en þeir sem á undan voru. Það verður ekki umflúið.

Hins vegar var andstaða við það hjá stjórnarandstöðunni að þetta frumvarp yrði afgreitt í sumar af stjórnarmeirihlutanum. Þess vegna varð að endurflytja það núna á haustþinginu og því kemur það til lögfestingar fyrst núna í desember, einum liðlega 6 mánuðum síðar heldur en annars hefði verið. Þá er það því miður þannig að þeir sem hafa verið að endurfjármagna sig svona að hluta í það hálfa ár fá ekki það sem þeir hefðu fengið ef þetta hefði orðið að lögum í júní.

Ég vil aldrei útiloka neitt fram á síðustu stund. Eins og hv. þingmaður hefur heyrt er formaður efnahags- og viðskiptanefndar tilbúinn til að leita leiða til að laga mál og bæta. Ef einhver getur sýnt fram á það fyrir 3. umr. að hægt sé að endurgreiða þetta án þess að því fylgi mikil fyrirhöfn og flækjustig þá skal ég að sjálfsögðu taka það til jákvæðrar skoðunar, en því miður hefur sú leið ekki fundist við meðhöndlun málsins til þessa.