141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[12:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að almennt megi um þetta segja að best fari á því að menn undirbúi skattalöggjöf með a.m.k. tveggja ára fyrirvara. Það fari best á því að á einu ári séu samþykktar breytingar á skattkerfinu, menn hafi næsta ár á eftir til að undirbúa sig fyrir þær breytingar og þær taki gildi á árinu þar á eftir. Þannig vinna menn þetta í löndum þar sem er sæmileg reglufesta, skipulag og agi í vinnubrögðum.

Það hefur hins vegar verið ákaflega sérstætt ástand í ríkisfjármálunum eins og hv. þingmaður þekkir og hefur þurft að bregðast við neyðarástandi. Þess vegna hefur þurft að koma hingað inn í þingið með frumvörp til aukinnar tekjuöflunar, með allt of litlum fyrirvara, og vinnubrögðin verið með þeim hætti. Nú þegar hallinn er kominn úr 216 milljörðum niður í aðeins 3 milljarða tel ég að þessu tímabili eigi að vera lokið og menn eigi að vinna með miklu lengri aðdraganda og miklu yfirvegaðri hætti að þeim breytingum en þeir voru í aðstöðu til að gera á því kjörtímabili sem núna er að ljúka.

Hvað varðar skuldir heimilanna held ég að það sýni sig, t.d. í þeim upplýsingum sem voru að koma fram í tengslum við Menigakerfið, að íslensk heimili eyða um efni fram og það er m.a. vegna þess að þau eru of skuldsett. Þau mega þess vegna við litlu, en ef ríkissjóður væri fær um að fara ekki í neinar verðlagshækkanir væri það auðvitað jákvætt. En það eru líka eins og hv. þingmaður veit takmörk fyrir því hve við getum safnað miklum skuldum upp í ríkissjóði því þær lenda ekki bara á börnunum okkar heldur gera þær okkur líka erfiðara (Forseti hringir.) að sparka efnahagslífinu aftur af stað.