141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[12:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ástandið er auðvitað svakalegt úr því að við erum að ræða þetta undir þeim formerkjum sem við gerum núna. Þessi stóru mál komu allt of seint inn í þingið frá hæstv. ríkisstjórn og í ofanálag, og það á við um þessi mál og mörg önnur, voru þau mjög illa unnin og við höfum því lent í miklum vandræðum við að vinna úr þeim. Ég er ekki að álasa nefndarmönnum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd eða meiri hluta hennar. Ég ætla það og veit að þeir eru að reyna að bjarga því sem bjargað verður.

Ég er hér með nefndarálit um bandorm eins og hann lítur út núna. Það verður bara að segjast eins og er, og það er mikið umhugsunarefni, að ég hef samt mjög litlar upplýsingar um stöðu málsins. Þetta eru flókin og mikil skattamál og þau tóku grundvallarbreytingum í gær og síðan aftur í morgun. Á eftir fáum við væntanlega fyrst gesti eða umsagnaraðila til að koma með álit sitt á þeim miklu breytingum. Við fengum álit þeirra á málinu eins og það var og það var alla jafna falleinkunn sem það fékk. Forusta hv. efnahags- og viðskiptanefndar reynir að bjarga því sem bjargað verður án þess að mega þó hvika frá skattahækkunum og eins og staðan er núna vitum við ekki hvort það gengur upp eða hvort það sé skynsamlegt. Reyndar er það svo að þegar breytingartillögurnar voru kynntar í gær, sérstaklega varðandi bílaleigurnar, kom það í ljós seint í gærkvöldi að þetta var miklu verri leið heldur en lagt var af stað með og þess vegna er þriðja leiðin komin á nokkrum klukkustundum.

Svo við áttum okkur á stærðinni erum við að véla um stöðu og framtíð heillar atvinnugreinar, þ.e. mjög mikilvægan þátt í ferðaþjónustunni sem eru bílaleigur. Ef einhver heldur að það sé einhver afmarkaður þáttur þá er það fullkominn misskilningur því afkoma bílaleignanna hefur sömuleiðis áhrif á allar bílgreinar, innflutning á bílum og eftirmarkað með bíla. Ég vona að ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal sem skrifum undir þetta álit séum búnir að ná helstu þáttunum í þessu. Við höfum líka ábyrgð sem felst í því að reyna að leggja gott til málanna og vera með eftirlit með framkvæmdarvaldinu og meiri hlutanum. Það er ansi mikil hætta á því að við höfum ekki getað uppfyllt þetta hlutverk eins vel og við hefðum viljað vegna þess að við höfum hvorki tíma né aðstöðu til þess. Ég vil þess vegna biðjast afsökunar á því að við höfum ekki getað skoðað þetta betur en það er einfaldlega vegna þess að það er ekki fræðilega mögulegt séð út frá tímanum eða aðstöðunni. Ég vil segja það hér að staðan er svona þannig að ef seinna kemur í ljós að við höfum kannski misst af litlum, stórum eða mikilvægum atriðum þá er það ástæðan. Það getur meira en verið að það sé eitthvað sem fer fram hjá okkur sem er auðvitað mjög slæmt og mjög alvarlegt í okkar lýðræðislega fyrirkomulagi. Það gengur út á að það sé lýðræðislegt eftirlit með þeim sem fara með völd og þar spilar stjórnarandstaðan auðvitað stórt hlutverk en einnig fjölmiðlar og ýmsir aðrir. Það getur meira en verið að það hafi eitthvað farið fram hjá okkur vegna hraða málsins og af því að við höfum ekki fengið þá sem best þekkja til til að leggja mat á breytingarnar og stöðuna. Ég vil að það komi fram vegna þess að þetta er stórmál. Það snýst ekki einungis um vinnuna núna, um einstaka hæstv. ráðherra eða hv. þingmenn heldur um það lýðræðislega fyrirkomulag sem við erum með á Íslandi. Ef við viljum að það gangi vel og sé trúverðugt verðum við að breyta vinnubrögðum.

Við lögðum á það áherslu, og ég vakti á því athygli strax og málið kom upp, að þetta mundi leiða til mikillar hækkunar á skuldum heimilanna. Það var gert ráð fyrir því miðað við þær upplýsingar sem við fengum. Það var ekki búið að meta það og við höfum verið að gera það á undanförnum dögum og vikum. Málið er flókið og erfitt og það hefði verið betra ef hæstv. ríkisstjórn hefði metið það þegar hún lagði það fram. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum bestar var gert ráð fyrir að þetta væri 0,46% af neysluvöruvísitölu, þ.e. hækkunin sem hefði þýtt 6–8 milljarða kr. hækkun á ári.

Miðað við þær breytingar sem voru gerðar í meðförum nefndarinnar er það komið í 0,36% sem þýðir 4–5 milljarða hækkun á höfuðstóli verðtryggðra skulda heimilanna. Það var ekki talað um verðtryggingu skulda almennt heldur bara heimilanna. 4–5 milljarðar er auðvitað veruleg hækkun.

Hér er gert ráð fyrir því að hækka almennt tryggingagjald. Vegna þess að það hefur svo margt og mikið verið í gangi í umræðunni hefur farið lítið fyrir því að bæði Samtök atvinnulífsins og ASÍ telja að gengið sé þvert á gefin fyrirheit stjórnvalda. Það þekkja allir að samkomulagið og traustið á milli til dæmis ASÍ og ríkisstjórnarinnar er ekki mikið og með þessari tillögu er verið að hella olíu á eldinn. Það verður að segja að samskiptin og traustið á milli aðila vinnumarkaðarins, hvort sem það eru Samtök atvinnulífsins eða ASÍ, og ríkisstjórnarinnar er farið og þessi tillaga er ein af ástæðum þess, eða kannski einn af dropunum sem fylla mælinn frekar en grunnástæðan.

Ef við tökum fyrir ferðaþjónustuna og bílaleigurnar er um skólabókardæmi að ræða um hvernig á ekki að vinna hlutina. Það komu fram hugmyndir um stórfelldan skatt á virðisauka á gistingu, nánar tiltekið 25,5%. Ef við hefðum gengið fram með það hefði það orðið hæsta virðisaukaskattsstig í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ég held að það sé bara Danmörk sem er með gistinguna í hæsta virðisaukaskattsstigi. Hvað gerðist um leið og sú yfirlýsing kom fram? Það hafði strax skaðleg áhrif á ferðaþjónustuna. Bókunum fækkaði um 15% frá því sem var á sama tíma í fyrra. Þeir hafa misst af stórum ráðstefnum. Ein af þeim var þúsund manna ráðstefna og fólk fer til annarra landa vegna þess að við erum í samkeppni um þetta eins og margt annað. Stækkun á hótelum hefur verið frestað í það minnsta á tveimur stöðum á landinu að ég veit og sömuleiðis eru upplýsingar um að ferðaheildsalar í Ameríku hafa hætt við að selja inn á Ísland eftir þetta.

Einhver kynni að spyrja hvort svona hækkun geti haft þessi áhrif og þá er ég að tilgreina fátt eitt sem kom fram í hv. nefnd. Því miður er það þannig. Ég er þeirrar skoðunar að það megi endurskoða skattstigið almennt eða skattumhverfið og svo sannarlega í ferðaþjónustunni en það verður ekki gert svona og kerfið er orðið gríðarlega flókið. Nú eru nokkur skattstig. Það er 7% skattur á ákveðnum þáttum ferðaþjónustunnar, 14% á öðrum og síðan átti að fara með þetta í 25,5% sem að vísu er líka á sumum þáttum ferðaþjónustunnar.

Flækjustigið býður upp á skattundanskot og skattsniðgöngu þrátt fyrir að meiri hluti nefndarinnar hafi reynt að koma til móts við sjónarmið ferðaþjónustunnar að því leytinu til að gildistöku á hækkun virðisaukaskatts hefur verið frestað. Núna er gert ráð fyrir að fara í 14% en ekki 25,5% og að það verði gert 1. september á þessu ári. Samt sem áður er skaðinn að stórum hluta skeður og alveg ljóst að við aukum enn á það flækjustig sem nú er til staðar.

Varðandi bílaleigurnar ætla ég ekki að rekja það allt saman í smáatriðum. Við getum sagt að fyrir nokkrum klukkutímum var uppi sú hugmynd að vera í raun með hæsta virðisaukaskattsstig í heimi, þ.e. að vera með nokkurs konar 1,5% veggjald á virðisaukaskattsskylda starfsemi sem væri útvíkkuð þannig að í rauninni væri um að ræða 27% skatt á ákveðinn hluta ferðaþjónustunnar og síðan tvö önnur gjöld. Aðilar ferðaþjónustunnar og bílaleignanna lögðust mjög gegn því og vildu frekar uppfylla þennan skatt öðruvísi eða með því að hækka vörugjöld. Eins og ég segi er þetta gert á einhverjum handahlaupum á milli funda og ég tel allt ferlið gott dæmi um hvernig á ekki að vinna hlutina.

Það á að hækka fjársýsluskatt sem er skattur á laun hjá fólki í fjármálageiranum. Það er séríslenskt fyrirbæri. Skatturinn hefur auðvitað þau áhrif að vaxtamunur hér verður meiri en erlendis og þóknunin hærri og það kemur sérstaklega illa niður á minni fyrirtækjum. Það hefur verið lítil umræða um samþjöppun á fjármálamarkaði á undanförnum árum sem hefur verið alveg gríðarleg á síðustu tveimur til þremur árum. Í rauninni gína þrír stórir bankar yfir öllu fjármálakerfinu. Markaðshlutdeild sparisjóðanna er 1–2% og síðan eru nokkrar mjög litlar fjármálastofnanir. Það ýtir undir verktöku og uppsagnir á starfsfólki og þá sérstaklega konum. Frá upptöku skattsins hafa 90 konur misst vinnuna hjá fjármálafyrirtækjum. Það er alveg ljóst að sú þróun mun halda áfram. Okkur hefur svo sannarlega mistekist eða í það minnsta höfum við ekki náð þeim markmiðum sem við vildum með endurskipulagningu fjármálakerfisins og mörg þau verkefni sem biðu nýrrar ríkisstjórnar munu bíða næstu ríkisstjórnar líka.

Síðan er það hækkun tóbaks- og áfengisgjalda en það var gert ráð fyrir umtalsverðri hækkun þeirra. Hvað sem okkur finnst um þessar vörur eiga þær sér samt staðgönguvörur sem er ólögmætt tóbak og áfengi. Við getum ekki þótt við vildum útrýmt áfengisneyslu og tóbaksneyslu með því að hækka gjöld. Það sem gerist er að þetta fer undir yfirborðið og svartur markaður með vörurnar blómstrar. Það er gangur lífsins. Gjöldin á léttvínið, bjórinn og tóbakið eru lækkuð en hækkuninni á sterku vínunum haldið og það er umhugsunarefni að frá árinu 2008 hefur sala á sterkum drykkjum minnkað um 40% þrátt fyrir að ferðamannastraumurinn hafi aldrei verið meiri hér á landi. Ég vona að það sé tilkomið vegna þess að það er drukkið 40% minna af sterku áfengi en ég er ansi hræddur um að svo sé ekki. Við munum bæði sjá meira brugg og smygl, og það eru ýmsar vísbendingar í þá áttina, en einnig að verri efna verði neytt í meira mæli. Ég vona að það sé rangt hjá mér og vonandi hefur bara verið drukkið minna en þá er það svolítil heppni.

Þetta hefur líka með ferðaþjónustuna að gera sem tengist því hvar við Íslendingar ferðumst því ef þessar vörur eru of dýrar eru minni líkur á því að fólk fari á veitingastaði eða á íslensk hótel því að í öðrum löndum eru vörurnar almennt ódýrari. Sem betur fer er ekkert neikvætt við að fólk neyti þessara vara í hófi og auðvitað gerir stór meiri hluti það þótt við sjáum sannarlega misnotkun sem við verðum að vinna gegn. Það er þó til lítils að refsa þeim sem fara vel með þessar vörur í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fólk misnoti þær. Það þarf í það minnsta að vera heil brú í þeirri stefnumótun og ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það.

Umhverfis- og auðlindaskattar eru framlengdir, raforkuskatturinn, og það hefur komið fram að það er brot gegn samkomulagi sem ríkisstjórnin gerði árið 2007 um fjárfestingarsamninga. Af mörgum ástæðum er alltaf alvarlegt að ríkisstjórnin og stjórnvöld rifti samningum og það er erfitt að koma hér og segja að við viljum ýta undir erlenda fjárfestingu á sama tíma og komið er fram eins og gert er. Ef einhver heldur að þeir sem fjárfesta hér á landi líti ekki til þessa er það mikill misskilningur. Það sér hver maður að ef hv. þingmenn sem eru hér inni ætluðu að fjárfesta í einhverju landi og vissu af því að reglur og samningar væru ekki virtir mundu þeir finna aðra staði til að fjárfesta í. Ég er ansi hræddur um það. Það er gangur lífsins og ef við viljum vera aðlaðandi kostur fyrir fjárfesta þurfum við aftur að komast úr þeirri stöðu að vera merkt sem land þar sem ríkir pólitískur óstöðugleiki og ekki er hægt að treysta því að menn fari eftir leikreglum. Það er stærsti kostnaðurinn við þessa aðgerð. Það sem mér fannst áhugavert er að það kom meira að segja fram hjá umsagnaraðilum að þeir teldu æskilegt að ef það væri vilji til að rifta þessum samningum yrði í það minnsta sest við samningaborðið svo hægt væri að sýna að menn væru þá að framlengja þetta eða gera einhverja hluti. Það væri ekki eins barbarískt og að svíkja gerða samninga. Mér finnst umhugsunarefni að stjórnvöld hafi ekki gert það.

Hérna er aðgerð í tengslum við kjarasamninga, tekjur af afleiðusamningunum. Það voru hugmyndir um skattalækkanir sem fljótt á litið sýnast mjög rökréttar því það virðist vera, og menn deila um hvort það sé í lagatexta eða túlkun skattyfirvalda, að tekinn sé skattur af brúttóhagnaði af afleiðuviðskiptum hjá einstaklingum. Það þýðir einfaldlega að ef einhver er í afleiðuviðskiptum og græðir 100 kr. þarf hann að borga 20 kr. af því. Ef hann á síðan í öðrum viðskiptum þar sem hann notar 80 kr. og tapar þeim öllum er það ekki frádráttarbært. Það er ekki þannig í neinum þeim skattareglum sem ég veit um, það er alltaf tekinn skattur af nettóniðurstöðu og ef menn ætla að halda þessari túlkun verður komið í veg fyrir að sambærileg viðskipti séu stunduð af þeim sem þurfa að greiða slíka skatta. Enginn er svo vitlaus, að því gefnu að hann viti af þessu, að hann stundi viðskipti upp á þessi býti. Það er kaldhæðnislegt að þegar hugmyndir um skattaívilnanir koma frá ríkisstjórninni er þeim umsvifalaust hent út af borðinu. Það eru þó góð orð um að við ætlum að taka þetta upp í janúar. Það eru góð orð um það hjá forustu nefndarinnar og ég treysti því að það verði gert og unnið þannig að við getum gengið frá málum í þeim mánuði.

Síðan er annað eins og íslenskar kvikmyndir. Það er gert ráð fyrir að setja virðisaukaskatt á aðgangseyri. Það eru færð fyrir því rök að við þurfum að gera það til að uppfylla erlendar skuldbindingar sem við höfum gengist við á alþjóðavettvangi. Mér hefði fundist eðlilegra að við hefðum kannski fengið einhverja umfjöllun í nefndinni um hvaða áhrif það hefði. Fjölmiðlar hafa brugðist hratt við og í það minnsta Morgunblaðið hefur birt frétt um að það hafi ekki áhrif á miðaverð. Vísað er til Ara Kristinssonar kvikmyndaframleiðanda og ráðgjafa hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands og ég vona bara að hann hafi rétt fyrir sér og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Það er kannski samt sem áður dæmi um ástandið þegar við þurfum að vinna svona.

Við þekkjum það með sóknargjöldin að ekki er staðið við samninga við kirkjuna. Það kynni kannski einhver að spyrja hvort ekki væri samræmi milli þess að svíkja samninga við kirkjuna og flesta aðra. Það er ekki gott ef það er orðin regla. Sú nefnd sem var sett á laggirnar af innanríkisráðherra og í voru fulltrúar kirkjunnar og ráðherrans komust að þeirri niðurstöðu að sóknargjöldin væru ígildi félagsgjalda þannig að ríkið væri fyrst og fremst að innheimta þetta fyrir kirkjuna. Það var gert samkomulag um að taka skerðinguna af með ákveðnu árabili. Svo það sé sagt að það hafi verið upplýst í nefndinni þá er skerðingin á sóknargjöldunum, þ.e. framlögin til kirkjunnar, hlutfallslega meiri en hjá öðrum stofnunum innanríkisráðuneytisins og hafa ekki verið færð nein rök fyrir því af hverju svo er.

Ég vildi fara yfir breytingartillögu sem varðar stimpilgjöldin, sem við að vísu munum kalla aftur til 3. umr. og ég vona að við fáum tækifæri til að ræða. Í örstuttu máli var samþykkt af held ég öllum hv. þingmönnum að afnema stimpilgjöld þegar fólk í skuldaerfiðleikum endurfjármagnar lán sín. Það sem gerðist hins vegar, og það sáu hv. þingmenn ekki fyrir, var að þegar menn breyttu úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð gerðu bankarnir ríkari kröfur en ef um verðtryggð lán væri að ræða sem gerði það að verkum að það þurfti að borga stimpilgjöld fyrir hluta þeirra lána sem menn voru að endurfjármagna. Það er vilji fyrir því hjá allri nefndinni að sjá til þess að þetta verði ekki svona áfram en gallinn er sá að það er ákveðinn hópur fólks, ekki stór hópur en sem munar um það þegar stimpilgjöldin eru mjög há og hefur endurfjármagnað á þessu ári. Við að tala um lítið mál fyrir ríkissjóð þar sem framkvæmd laga var í rauninni þvert á markmið þeirra hvað varðar þennan litla hóp. Það er því ekki um að ræða að við séum að fara á einhvern annan stað en við vorum á en þetta munar miklu fyrir þá sem hafa þurft að greiða stimpilgjöldin. Fólk hefur lítið á milli handanna almennt og þá sérstaklega fólk sem skuldbreytir til að taka á málum vegna þess að það er í erfiðleikum. Við erum með breytingartillögu um að það verði líka tekið til fyrir árið 2012 og ég er sannfærður um að við munum fara vel yfir það í nefndinni. Það er enginn vafi í mínum huga um að það er fullur vilji hjá formanni nefndarinnar, hv. þm. Helga Hjörvar, til að fara vel yfir það. Þetta snýst ekki um pólitískar skoðanir heldur um vilja okkar til að koma til móts við þá sem eru skuldsettir og að framkvæmdin á lögunum verði í rauninni eins og lagt er upp með því það fólk sem gerði þessar breytingar var grandalaust um að túlkun sýslumanns yrði svona og hefur svo sem ekki tök á því. Það er mikill kostnaður að fara í mál og kannski tekur því ekki fyrir fólk að fara þá leiðina.

Virðulegi forseti. Við munum líka koma fram með tillögu um það og það verður áhugavert að sjá viðbrögðin við henni. Margir þingmenn hafa gefið stórar yfirlýsingar um að þeir hafi verið á móti þeirri leið sem ríkisstjórnin hefur farið varðandi virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna og lýst því yfir það þeir samþykki ekki fjárlög nema því verði breytt. Það hefur síðan verið lítið um efndir þegar á hólminn hefur verið komið og ýmislegt sem bendir til þess að þeir hafi talið að þeir gætu fengið eitthvað annað í staðinn og ætli ekki að standa við stóru orðin hvað þetta varðar. Hv. viðkomandi þingmenn hafa tækifæri til þess við atkvæðagreiðslu við 3. umr. að sýna vilja sinn í verki og við hv. þm. Pétur H. Blöndal munum leggja það til að gildistöku virðisaukaskattsins á ferðaþjónustunni verði frestað til 1. janúar 2014. Þá gefst okkur nægur tími til að skoða þau mál gaumgæfilega og hafa m.a. aðilar í ferðaþjónustu lýst yfir áhuga og vilja sínum til að koma að því að endurskoða þetta skattumhverfi og þótt fyrr hefði verið. Reyndar er það þannig að þrátt fyrir öll stóru orðin er það eina sem eftir stendur, eftir að allir ráðherrarnir og allir hv. þingmenn hafa komið að þessum málum á kjörtímabilinu, að búið er að samræma vörugjöldin á milli samlokugrillsins og brauðristarinnar. Ég vil ekki gera lítið úr því, auðvitað skiptir ristað brauð miklu máli en þetta er samt sem áður nokkuð rýr eftirtekja eftir allar yfirlýsingarnar og alla vinnuna.