141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[13:30]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Þetta er nefndarálit um bandorminn svokallaða en í því er að finna ýmsar skattahækkanir og gjaldskrárhækkanir sem taka gildi á næsta ári. Þetta eru erfiðar hækkanir fyrir heimili landsins vegna þess að þau þola ekki frekari hækkanir útgjalda og skulda án þess að mörg þeirra fari í þrot eða neyðist til að leita aðstoðar hjálparsamtaka.

Tillögur um skatta- og gjaldahækkanir sem stjórnarflokkarnir leggja til munu eins og þær standa núna leiða til 0,3% hækkunar vísitölunnar en það þýðir að verðtryggð lán heimilanna munu hækka um 4–5 milljarða. Þessi hækkun verður mörgum heimilum afar þungbær og verður að öllum líkindum til þess að mörg heimili ráða ekki lengur við skuldsetninguna. En skatta- og gjaldahækkanir leiða ekki einungis til hækkana á verðtryggðum skuldum, þær þýða auðvitað hærri þjónustugjöld og jafnvel vöruverð.

Það er mjög erfitt fyrir heimili eða einstaklinga sem þurfa að lifa á lágmarkslaunum, bótum úr almannatryggingakerfinu og lífeyri að mæta slíkum útgjaldahækkunum. Ef við skoðum fjölda einstaklinga sem fengu fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna á árunum 2007–2011 þá fjölgar þeim um hvorki meira né minna en 80%. Þetta er gífurleg aukning og skrifast að stórum hluta á bankahrunið og þann samdrátt sem varð í kjölfarið á því.

Það eru fleiri sem eiga í erfiðleikum. Það eru líka heimili sem eru kannski með ágætar tekjur en með erfiða greiðslu- og skuldabyrði. Ef við skoðum tölur frá Creditinfo frá árinu 2008 á voru einstaklingar í vanskilum 16 þúsund en þeir eru nú rúmlega 26 þúsund. Ekki er nóg með að fólk eigi erfitt með að standa í skilum með lán heldur eru mörg heimili sem geta staðið í skilum með lán að upplifa að eignastaða þeirra í fasteigninni er algerlega horfin.

Ef við skoðum til dæmis alla þá sem eru yngri en 45 ára þá áttu þeir á árunum fyrir hrun um 20% af öllum eignum landsmanna en í dag er eignastaða þeirra neikvæð sem samsvarar mínus 2% af heildareignum. Það sem gerðist eftir hrun við það að skuldir heimilanna hækkuðu um rúmlega 40%, eða um 420 milljarða, var að ákveðin kynslóð var gerð eignalaus eða eignir hennar færðust af hennar reikningi yfir á kynslóðir þeirra sem eru nálægt töku lífeyris. Sú kynslóð jók eignarhlut sinn í heildareignum landsmanna á þessu tímabili fyrir og eftir hrun. Hækkun vaxtabóta, eins og lögð er til í bandorminum, mun auðvitað gera skuldsettum heimilum kleift að standa í skilum á lánum sínum en hún leysir ekki skuldavanda þeirra. Það er ekki hægt að lækka eða afnema þessa sérstöku vaxtaniðurgreiðslu. Hún var innleidd á árinu 2011 og gilti í ár en átti að renna út á þessu ári, en í bandorminum er gert ráð fyrir að heimild til að greiða út slíka sérstaka vaxtaniðurgreiðslu verði framlengd um eitt ár. Það er auðvitað vegna þess að skulda- og greiðslustaða margra heimila er afar erfið.

Það sem gerist yfirleitt hér á landi þegar hagkerfið fer í gegnum niðursveiflu er að ríkið eykur stórlega niðurgreiðslur sínar á vöxtum og yfirleitt fara þá niðurgreiðslurnar í um þriðjung af vaxtagreiðslum heimilanna. Þegar fer að ára betur eru vaxtaniðurgreiðslurnar lækkaðar og þær fara í um 15% af vaxtakostnaði húsnæðislána. Þetta er einmitt það sem við erum að sjá núna. Á árinu 2010 varð ríkið að greiða niður tæplega þriðjung af vaxtakostnaði heimilanna af fasteignalánum. Það hlutfall var komið niður í 27,5% árið 2011. Það var aðeins hærra árið 2010 og við gerum ráð fyrir að hlutfallið haldist nokkurn veginn svipað á árinu 2013. Það mun auðvitað lækka örlítið þar sem upphæðirnar eru látnar rýrna.

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að í stað þess að vera alltaf að hækka eða stórauka niðurgreiðslur skattgreiðenda á allt of háu vaxtastigi þegar heimilin eiga í erfiðleikum vegna samdráttar í hagkerfinu sé miklu nær að leiðrétta lánin, sérstaklega lán sem hafa orðið fyrir forsendubresti, og tryggja með lagasetningu að vextir hér á landi séu sambærilegir við það sem gerist í nágrannalöndunum. Á fjármálamarkaði ríkir mikil fákeppni sem þýðir að bankarnir sem þar starfa geta ástundað sjálftöku hvað varðar vaxtastigið, þeir bara ákveða einfaldlega vaxtastigið og það er í sjálfu sér ekkert sem réttlætir að skattgreiðendur séu að niðurgreiða vaxtastigið til að gera rekstur banka einkaaðila arðbærari. Nær væri að beita lagasetningu og setja þak á vexti og verðtryggingu.

Ríkisstjórnin hefur farið í ýmsar aðgerðir til að aðstoða skuldsett heimili. Þar má nefna þessa sérstöku vaxtaniðurgreiðslu sem á að framlengja á næsta ári, heimild til úttektar á séreignarsparnaði sem á líka að framlengja þannig að hún gildi á næsta ári og síðan er ný aðgerð sem á líka að framlengja, og það er tímabundin undanþága frá greiðslu stimpilgjalds þegar skilmálum fasteignaveðskuldabréfa er breytt eða ný veðskuldabréf eru gefin út. Það er sem sagt fagnaðarefni að fólk sem ætlar t.d. að reyna að ná skuldsetningu sinni niður með því að skilmálabreyta verðtryggðu láni í óverðtryggt lán hjá sömu lánastofnun þurfi ekki að borga ríkinu stimpilgjald af þeirri breytingu.

Við hv. þm. Eygló Harðardóttir erum með breytingartillögu sem er í sömu átt. Við viljum að lánastofnunum verði óheimilt að krefjast lántökugjalds af skilmálabreytingum. Lántökugjaldið er ekki ýkja hátt. Ég veit að að minnsta kosti einn banki er með lántökugjald á skilmálabreyttum lánum sem nemur 0,5%. En ef fólk er að skipta yfir í óverðtryggð lán þarf það að hafa varasjóð til að geta mætt sveiflum í vöxtum eða vaxtagreiðslum og það að þurfa að borga lántökugjald rýrir þann sjóð. Lántökugjaldið gerir líka mörgum lágtekjuheimilum erfitt fyrir að fá endurfjármögnun á skuldum sínum á hagstæðari kjörum hjá fjármálastofnunum. Við teljum nauðsynlegt að taka lántökugjaldið líka fyrir og meðhöndla það á sambærilegan hátt og stimpilgjaldið enda er það ekki réttlátt að skattgreiðendur falli frá sínum tekjum af skilmálabreyttum lánum þegar bankarnir síðan fá að halda áfram að innheimta tekjur sínar af slíkum skilmálabreytingum. Ég kaupi ekki þau rök að það kosti fjármálastofnanir mikið að samþykkja eða meta hvort viðkomandi einstaklingur eigi að fá skilmálabreytingu því að yfirleitt eru þessir einstaklingar með lán hjá stofnuninni sem þeir eru að sækja um slíka skilmálabreytingu hjá og allar upplýsingar um greiðsluferli, eignastöðu og skuldir eru í bankanum. Ég held að þetta sé oft bara spurning um einn fund starfsmanna bankans þar sem tekin er ákvörðun um hvort leyfa eigi slíka skilmálabreytingu og það getur ekki kostað mikið.

Við viljum gera vel við barnafjölskyldur í landinu. Það vill meiri hlutinn gera með hækkun barnabóta sem ég fagna alveg sérstaklega. En það eru auðvitað vonbrigði að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferðarkerfið skuli ekki á tæpum fjórum árum sem hún hefur setið við völd hafa treyst sér til að innleiða aðalsmerki norræna velferðarkerfisins sem eru ótekjutengdar barnabætur. Þess má geta að barnabætur eru ótekjutengdar alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum og það er réttlætt með því að barnabætur séu til að niðurgreiða kostnað vegna barneigna og barnauppeldis. Það á ekki að skipta neinu máli hvaða tekjur foreldrarnir hafa, það á að borga það sama með öllum börnum. Ef manni finnst það ekki réttlátt þá er það bara tekjuskattskerfisins að jafna út á meðal fólks en ekki barnabótakerfisins.

Við hv. þm. Eygló Harðardóttir viljum gera enn betur. Við leggjum til breytingartillögu við bandorminn. Það er nú reyndar kunnugleg breytingartillaga því að ég og hv. þm. Birkir Jón Jónsson höfum lagt hana fyrir áður, það var síðasta vor. Ég lagði síðan fram frumvarp um þessa breytingartillögu en hún felur í sér að margnota umhverfisvænar bleiur eru færðar úr efsta virðisaukaskattsþrepinu, 25,5%, í 7% virðisaukaskattsþrep. Þetta er auðvitað í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að hún vilji hlúa betur að barnafjölskyldum. Þetta er líka í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að efla græna neyslu og stýra neyslunni þannig að hún hafi eins lítil neikvæð áhrif á umhverfið og hægt er. Við sáum þetta þegar við vorum að fella niður ýmis gjöld á rafbílum síðasta vor.

Margir halda því fram að margnota bleiur séu ekki umhverfisvænar vegna þess að orka fari í að þvo þær og líka sápa út í umhverfið. En þá gleymir fólk því að við erum með umhverfisvæna orku hér á landi þannig að það er mat sérfræðinga að notkun umhverfisvænna bleia sé mjög jákvæð fyrir umhverfið hér á landi. Það er auðvitað von okkar flutningsmanna að þessi breytingartillaga verði samþykkt. Hún var felld með litlum mun síðasta vor. Margir stjórnarliðar og ekki síst þingmenn þingflokks Samfylkingarinnar ákváðu að flykkja sér á bak við þessa tillögu.

Síðan er það frestun á gildistöku 14% virðisaukaskattsþrepsins á gistingu ferðaþjónustunnar. Þetta er nýtt virðisaukaskattsþrep. Upphaflega var gert ráð fyrir að þetta tæki gildi 1. mars en nú hefur meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar frestað þessu enn lengra fram á árið eða til 1. september. Það dugar sennilega ekki til því að eins og KPMG bendir á í umsögn sinni eru flestir ferðaþjónustuaðilar búnir að gera samninga við viðskiptavini sína fyrir næsta ár og samkvæmt lögum ber þjónustufyrirtækjum að innheimta þá skatta sem eru í gildi þegar reikningur er gefinn út, þ.e. ef þeir eru búnir að ganga frá samningum munu þeir ekki þurfa að innheimta 14% virðisaukaskatt á gistingu heldur vera í 7% eins og það er í ár.

Ríkisskattstjóri sagði í umsögn sinni að upptaka nýs skattþreps, þ.e. þessa 14% skattþreps, mundi flækja skattkerfið og auka verulega hættu á undanskotum. Embættið lagði til að gildistökunni yrði frestað um eitt ár og 3. minni hluti tekur undir nauðsyn þess.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég ætla bara að nota niðurlagið í nefndaráliti 3. minni hluta sem lokaorð í framsögu minni en þar stendur:

„Norræna velferðarstjórnin gat fjármagnað velferðina eftir hrun með skatti á aflandskrónur og lágum vöxtum. Þessi tækifæri nýtti hún ekki og hækkaði þess í stað álögur og skar niður velferðina. Nú er komið að endimörkum niðurskurðar og skattahækkanastefnu hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórnar. Heimilin geta ekki tekið á sig þyngri byrðar.“