141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[13:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir fór víða í ræðu sinni og ég ætla ekki að taka allt fyrir en mig langar til að spyrja hana um eitt. Hún talaði um að sparifjáreigendur hefðu haft allt sitt á þurru, og hefur svo sem margoft sagt það áður, á meðan skuldararnir séu þeir sem blæða. Ég vil spyrja hana hvernig hún líti á það að 55 þús. heimili töpuðu um 80 milljörðum kr. í hlutabréfum sem urðu verðlaus og þar fór sparnaður mjög margra, hvort það sé ekkert áfall að hennar mati.

Síðan eru þeir sem eiga sparifé og hafa lagt til hliðar, sem eru ekkert allt of margir á Íslandi og kannski vill hv. þingmaður ekki hafa þá marga, þeir eiga inneignir í krónum og 70% af þeim eru óverðtryggðar. Þeir tapa alla daga og krónurnar hafa rýrnað miðað við aðrar myntir eins og evru og dollar. Er það ekki tap eða er það bara áfram gróði?

Síðan ræddi hún dálítið um barnabætur og það var áhugaverð umræða hvort barnabætur ættu að vera tekjuháðar eða óháðar tekjum. Það er rétt að ef það á að hvetja fólk til að eiga börn til að standa undir velferðarkerfi framtíðarinnar, hvort sem það er í lífeyrismálum, skattamálum eða öðru, þá ættu barnabætur að vera óháðar tekjum, því að við viljum hvetja fólk til barneigna í öllum tekjustigum. En ef horft er á framfærsluna og framfærslubyrðina mundum við að sjálfsögðu hafa þær tekjuháðar. Þetta er spurning um þessi tvö sjónarmið. Ef við hugsum um fjölskylduna sem einingu og ætlum að tryggja henni ákveðna framfærslu höfum við barnabæturnar tekjuháðar en ef við erum að hugsa um framtíðarvelferðarkerfið til 50 eða 100 ára verðum við náttúrlega að sjá til þess að í framtíðinni séu skattgreiðendur til að standa undir velferðarkerfinu.