141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[14:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er sammála því sem hv. þingmaður sagði að þessi bandormur eða kyrkislanga fái engin bókmenntaverðlaun. Það er auðvitað rétt sem hv. þingmaður sagði að það er hægt að breyta vinnubrögðunum um framlagningu á skattafrumvörpunum. En það er dapurlegt að það komi fram hjá hv. stjórnarliðum akkúrat þegar kjörtímabilið er búið.

Ég vil líka gera athugasemd við það sem hv. þingmaður sagði um að fjárlagahallinn á næsta ári verði 3 milljarðar. Hann verður a.m.k. 8–10 sinnum meiri en það. Það rökstuddi ég ítarlega í 1. minnihlutaáliti fjárlaganefndar sem enginn hefur treyst sér til að hrekja hingað til.

Hv. þingmaður sagði að hallinn hefði farið úr 216 milljörðum niður í 3 milljarða og svo kom skýringin á því af hverju ríkisreikningurinn er með þeim hætti miðað við það sem fjárlögin gera ráð fyrir. Hann er auðvitað þannig vegna þess að hv. þingmaður sagði einskiptisaðgerðir, en var ekki eitthvað af einskiptisaðgerðum í þessum 216 milljörðum? Það munar ekki nema 91 milljarði á ríkisreikningi árin 2010 og 2011, miðað við það sem fjárlög gera ráð fyrir.

Ég held að við séum sammála um að ná tökum á ríkisfjármálunum og fara að greiða niður skuldir. Nú er það þannig að ríkisstjórnin heldur enn áfram á þessari skattpíningarbraut, þ.e. skattpínir heimilin enn frekar með einum eða öðrum hætti. Hún er í stríði við alla, alveg sama hver það er, verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins, sjávarútvegurinn eða ferðaþjónustan, sem er nýjasta atlagan að hér. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Getur hv. þingmaður nefnt einhvern aðila sem kemur að því mikilvæga verkefni að ná tökum á ríkisfjármálunum sem ríkisstjórnin er ekki í stríði við? Síðast var það kirkjan sem var svikin. Getur hv. þingmaður nefnt þó það væri ekki nema einn aðila sem þarf að koma að því mikilvæga verkefni að ná tökum á ríkisfjármálunum og hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn er ekki í stríði við?