141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[14:07]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði um ýmislegt. Hann lagði inn sjónarmið varðandi tolla ríkissjóðs. Auðvitað eru ýmiss konar einskiptisaðgerðir sem við þurfum á öllum tímum að glíma við og vissulega var hrun Seðlabanka Íslands einskiptisaðgerð. En ég vil meina að hún hafi staðið í nánu samhengi við þau lausatök sem voru á öllu skipulagi fjármálakerfisins á Íslandi og var byggt upp í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á sínum tíma. Það voru þeir sem báru ábyrgð á einkavæðingu bankanna og því hve hrapallega var staðið að því ferli á sínum tíma.

Ég held hins vegar að ef við erum sanngjörn verðum við að átta okkur á því að rekstur ríkissjóðs hefur gengið miklu betur undanfarin ár heldur en var fyrrum. Það er miklu meiri agi á ráðuneytunum. Þeim er gert að halda sig innan fjárheimilda, það hefur tekist með ágætum undanfarin ár og aðstæður eru að skapast til að greiða niður skuldir.

Spurningin er: Er ríkisstjórnin í stríði við aðila úti á vinnumarkaðnum? Ég held að öllum sé ljóst að það eru ekki nægilega góðir straumar sem ganga þarna á milli, en ég held að báðir aðilar beri á því einhverja ábyrgð. Ég get nefnt sem dæmi að lífeyrissjóðirnir skrifuðu upp á það árið 2010 að þeir mundu taka þátt í fjármögnun sérstakrar skuldaaðlögunar. Síðan tala þeir um svik þegar þeir eru beðnir um reikningsskil á því samkomulagi. Ég held að afar mikilvægt sé að menn finni leiðir til að vinna saman í þessum efnum. Staðreyndin er sú að kaupmáttur er að vaxa í landinu, verðbólgan er að minnka, atvinnuleysið hefur minnkað um helming, fjárfestingar eru að glæðast. þó enn þurfi að gera betur. og staða ríkissjóðs er miklum mun betri en hún var í upphafi kjörtímabilsins.