141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[14:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Vegna þeirrar umræðu sem spannst hér rétt áðan þá eru vissulega kosningaloforð í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi. Það á ekki að hækka framlög til Ríkisútvarpsins eins og til stóð. Það þykir gott. Það á ekki að hækka gjöld á bensín og olíu, það þykir líka gott fyrir kosningar o.s.frv. Það er sem sagt verið að gera ýmislegt í tilefni kosninganna.

Það frumvarp sem við ræðum hér og erum búin að ræða áður við 1. umr. er afskaplega sundurlaust, út og suður. Þetta er nú ekki góður stíll eins og kom fram í menntaskóla, en kannski eðli málsins samkvæmt er það þannig.

Ég ætla ekki að fara út í einstaka liði hérna. Það sem náttúrlega vekur athygli er að verið er að gera breytingar, ekki bara fram á síðasta dag, heldur fram á síðasta klukkutíma. Það voru gerðar breytingar í morgun í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem eru lagðar fram hérna. Þær liggja fyrir á prentuðu skjali en ekki í dagskránni og síðan er verið að gera breytingar við breytingarnar. Þetta eru breytingar við breytingar þannig að það sem ég hélt í gær að væri heimsmet í virðisaukaskatti, 27%, er búið að afturkalla. Þannig að það heimsmet féll, ekki vegna þess að aðrar þjóðir hefðu bætt um betur, heldur vegna þess að forsendunum var kippt burtu.

Það hefur verið varað mjög alvarlega við 14% virðisaukaskattinum á útleigu á hótel- og gistiherbergjum. Það liggur alveg fyrir að þegar menn fara að selja pakka til ferðamanna sem innihalda gistingu, mat, útreiðartúr, alls konar snjósleðaferðir og annað slíkt þá munu menn væntanlega auka vægi þeirra þátta sem eru með minnstan virðisaukaskattinn. Það er nefnilega þannig, frú forseti, að fólk vill helst ekki borga mikla skatta ef það kemst hjá því og gistingin verður allt í einu mjög ódýr. Það er ekki hægt að rökstyðja með neinum hætti að það sé eitthvað rangt. Gistingin er seld á þúsundkall, maturinn er seldur á 10 þúsund kall o.s.frv. Svo skiptir máli hvort hundasleða- eða snjósleðaferðirnar eru seldar beint, þ.e. hvort menn leigja snjósleða, þá borga menn mikinn virðisaukaskatt, 25,5%, en ef þeir fara í snjósleðaferð þá er hún undanþegin virðisaukaskatti. Það verður væntanlega mjög lítið um beina útleigu á snjósleðum.

Þetta sýnir hvað þetta kerfi er orðið óskaplega viðkvæmt, enda var varað við því í umsögnum m.a. frá ríkisskattstjóra. Þetta er búið að fara í gegnum hérna þannig að ég ætla ekki að fara nánar út í það. Það eru gerðar sérstaklega miklar breytingar við bílaleigurnar. Þar eru teknir upp þrír nýir skattar. Það er krónuskattur, sem er ekki reyndar krónu heldur milljón krónur. Menn borga nokkrar milljónir fyrir að fá leyfi fyrir bílaleigu og það er háð fjölda bifreiðanna. Allt þetta einkennist af mikilli fljótfærni, miklum hraða, miklum breytingum, sviptingum fram og til baka og verulega mikilli flækingu skattkerfisins.

Nú má segja að það komi eiginlega engum við hvað bílaleigur borga í skatt nema bílaleigunum sjálfum og það er rétt að vissu marki. En ég minni á að allt lagasafnið er kennt við lagadeildir háskólanna og þar þurfa menn að setjast niður og læra þessi kerfi öllsömul. Það verða þá kannski til sérfræðingar í skattarétti með sérsviðið bílaleigur og svo eru aðrir sem heita sérfræðingar í skattarétti, sérsvið hótelrekstur. Þannig verða þá sérfræðingar í þessum greinum öllum saman. En þetta er ekki nógu gott, frú forseti. Við verðum að fara að vinda ofan af þessu og maður bíður með óþreyju eftir að hér verði kosningar og tekin upp ný stefna sem felst í því að einfalda skattkerfið, gera það almennt þannig að allir geti skilið það. Við það að allir geta skilið skattkerfið þá tapast mikil þekking hjá þeim sem hafa sérhæft sig í þessu óskaplega flækjustigi sem er orðið á öllu skattkerfinu.

Varðandi bílaleigurnar þá er gert ráð fyrir að bílaleigur sem nýta lækkun á vörugjaldi, þær geta væntanlega valið um, greiði leyfisgjald sem eru 1.750 þús. kr. hjá bílaleigum sem flytja inn allt að 35 ökutæki á lækkuðu vörugjaldi. Annaðhvort flytja þær inn 35 eða enga, þær munu væntanlega ekki flytja inn eina bifreið og borga fyrir það 1.750 þús. kr. Svo er það hærra fyrir þær sem flytja inn meira, 3.750 þús. kr. allt að 250 ökutækjum og ef það er umfram það þá borga menn 6.750 þús. kr. Þetta er afskaplega skrýtin skattlagning, mjög skrýtin. Það hefði mátt segja að menn borgi ákveðið gjald fyrir hvern bíl sem þeir flytja inn, en þá verður það farið að nálgast það að vera vörugjald.

Svo er vörugjaldið á bílaleigubíla. Það stóð til að það yrði bara almennur skattur en það var fallið frá því og skatturinn settur niður í núll, en svo var gjaldið aftur hækkað og nú greiða menn samkvæmt þessu hærri virðisaukaskatt á bílaleigubíla, en ekki eins mikið og almenningur. Allt er þetta mjög flókið, allt eru þetta skammtímabreytingar og ég vara við þessu. Það er alveg stórhætta að það verði einhver mistök í þessu ferli þegar maður fer svona hratt yfir það.

Nú veit ég ekki hvort til stendur að taka þetta mál aftur í nefndina. Ég held að það standi til, enda veitir víst ekki af að líta enn einu sinni yfir þessar breytingar. Ég mundi leggja það til, svo maður geti rétt aðeins litið yfir hvernig þetta lítur endanlega út eftir að búið er að afgreiða það á Alþingi. Eins og menn heyra á mæli mínu þá er ég ekki hrifinn af þessum ráðstöfunum öllum saman. Þær gera mikið í því að flækja skattkerfið og gefa ekki voðalega miklar tekjur.

Ég er í sjálfu sér hlynntur því sem menn eru að gera með aflandsskattinn sem á að borga þetta allt saman, allar jólagjafirnar. Ef það er alveg á hreinu að hann gefi þessar tekjur og það komi ekki niður á íslenskum orkufyrirtækjum sem hafa tekið lán, en það er rétt að sneiða hjá því. Ég ætla að vona að þau atriði haldi öllsömul. Ég er hlynntur því að vogunarsjóðir og aðrir sem eiga hérna miklar innistæður og miklar kröfur og eru að flytja út vexti af bæði spariskírteinum og innstæðum — ég tel svo sem ekkert athugavert við að þeir borgi aflandsskatt eða skatt á vexti sem fluttir eru til útlanda, þannig að ég er hlynntur því.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, þetta er orðin mikil umræða og ég veit ekki hvort það bætir nokkuð í skilninginn að halda áfram að tala um þetta flókna mál. En þetta frumvarp er meira út og suður og mér finnst það versna stöðugt við meðferðina.