141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[14:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu til mikilla muna. Hér hafa öll helstu meginsjónarmið komið fram. Þó er ástæða til að árétta það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að auðvitað hefur ekki gefist nokkur kostur á að skoða til hlítar þær breytingartillögur sem eru að koma fram á síðustu stundu. Ég tek því undir þau orð hans að við þessar aðstæður er hætt við að mistök verði í lagasetningu. Það er hætt við að menn eigi erfitt með að átta sig á því hver áhrif lagabreytinganna verða raunverulega og þess vegna er þingið ekki, hæstv. forseti, að vanda til verka með því að vinna með þessum hætti. Það er leiður siður, eins og ég hef vakið athygli á hér síðustu daga, með mál sem tengjast tekjuöflun ríkissjóðs, að þau skuli koma jafnseint inn í þingið og raun ber vitni.

Þessi skattafrumvörp sem tengjast fjárlögum ársins í ár komu inn í þingið um mánaðamótin nóvember/desember, tveimur og hálfum mánuði eftir að fjárlög voru lögð fram. Það er mjög sérkennilegt í ljósi þess að í fjárlögum, sem lögð voru fram hér á þinginu 11. september, var gert ráð fyrir tilteknum tekjum af tilteknum sköttum og skattbreytingum, en frumvörpin sem eiga að fylgja þeim skatttekjum eftir eða tryggja þær komu ekki inn í þingið fyrr en tveimur og hálfum mánuði síðar. Hver er afleiðingin? Afleiðingin er sú að fjárlög eru afgreidd hér án þess að búið sé að ganga frá skattahlutanum. Afleiðingin er sú að allt of skammur tími er fyrir hendi til að fara í gengum skattamálin og ræða þau. Ekki bætir svo úr skák, hæstv. forseti, þegar grundvallarbreytingar eru gerðar á einstökum skattalegum atriðum eða ákvæðum frumvarpanna nóttina fyrir síðasta dag þingsins. Ekki er með nokkru móti hægt að forsvara svona vinnubrögð.

Nú verðum við að segja sem svo að þetta hafi gerst áður. Þetta hefur gerst áður í tíð þessarar ríkisstjórnar og raunar fyrr líka. Þróunin hin síðari ár hefur þó öll verið á verri veg. Ekki er endalaust hægt að bera fyrir sig bankahrun haustið 2008 til að réttlæta síðustu mínútu reddingar hér í þinginu eins og gert hefur verið af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar. Ekki er endalaust hægt að vitna í atburðina í byrjun október 2008 og segja: Þess vegna erum við á síðustu stundu með skattafrumvörpin. Þess vegna verðum við að breyta þeim í grundvallaratriðum nóttina áður en þau eiga að afgreiðast hér á þinginu. Þetta er ekki hægt, hæstv. forseti, þetta er ekki forsvaranlegt.

Þetta er sérlega hlálegt í ljósi þess að við þingskapabreytingu í fyrra var tekin mjög stefnumarkandi ákvörðun um að frumvörp sem tengdust tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins kæmu inn samhliða fjárlagafrumvarpinu. Þeirri breytingu var raunar frestað til ársins 2013 þannig að ekki er hægt að segja að hæstv. fjármálaráðherra sé að brjóta þetta ákvæði þingskapa með því að koma jafnseint með frumvörpin inn núna, ekki er hægt að segja að um brot sé að ræða. Hins vegar brýtur það algerlega í bága við þá stefnumótun sem átti sér stað af hálfu þingsins og samstaða var um í þinginu í fyrra þegar þingsköpum var breytt. Það tóku allir undir að skynsamlegast væri, bestu vinnubrögðin, að tekjufrumvörpin kæmu inn samhliða fjárlagafrumvarpinu, enda má ætlast til þess að hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkarnir séu búnir að móta sér ákveðnar hugmyndir um það hvernig þeir ætla að ná í þær tekjur sem síðan koma fram í fjárlagafrumvarpinu þegar það er lagt fram. Því verður vart trúað að menn setji bara einhverjar upphæðir af handahófi inn í fjárlagafrumvarp og setjist síðan — þegar það er búið, þegar búið er að leggja það fram, 800 milljónir hér, 500 milljónir þar — niður við að reyna að finna út hvernig þeir ætla að reyna að ná í þessa peninga. Því verður ekki trúað.

Hvað sem þessum málsmeðferðaratriðum líður verð ég að segja að margt í frumvarpinu veldur manni áhyggjum. Það veldur áhyggjum hvaða skattahækkanir um er að ræða. Það veldur áhyggjum að verið er að ganga á bak samkomulagi við atvinnugreinar í landinu eins og þekkt er og kunnugt. Það veldur áhyggjum að í þessum málum, þessum mikilvægu málum, skattamálunum, stendur ekki eitt fyrirheit af því sem ríkisstjórnin hefur gefið, hvorki gagnvart samtökum í atvinnulífinu né öðrum hagsmunaaðilum. Við vitum að út um allt samfélag eru hagsmunahópar, hagsmunaaðilar, sem í góðri trú hafa gert samkomulag við ríkisstjórnina um hitt og þetta, hvort sem það eru öryrkjar, aldraðir, Samtök atvinnulífsins, útgerðarmenn, verkalýðshreyfingin — einstakir hópar þingmanna í stjórnarandstöðu hafa á einhverjum tíma gert samkomulag um eitthvað við ríkisstjórnina — en ekkert stenst, ekki er staðið við neitt. Það er ekki staðið við neitt og það verður arfleifð þessarar ríkisstjórnar eða eftirskrift að hún hafi aldrei gefið það loforð sem hún stóð við. Aldrei.

Þetta frumvarp felur í sér gjaldahækkanir til viðbótar við miklar gjaldahækkanir sem hafa átt sér stað á síðustu árum. Ég ætla ekkert að fara í einstök atriði, aðrir hafa gert grein fyrir þeim atriðum í þessum umræðum um frumvarpið. Þessi ríkisstjórn hefur valið þá leið að reyna að skatta sig út úr vandanum og er svo hissa á því að atvinnulífið taki ekki við sér, undrandi yfir því að atvinnulífið skuli ekki sýna meira lífsmark, skuli ekki fjárfesta meira, skuli ekki ráða fleira fólk í vinnu. En hvernig mætti það vera þegar hernaður er rekinn gegn atvinnulífinu og einstökum atvinnugreinum af hálfu ríkisstjórnarinnar á hverju ári, hverju þingi, hvert skipti sem kemur að jólaleyfi eða vorhléi koma ný mál inn í þingið til þess að gera starfsumhverfi atvinnulífsins verra, ekki betra heldur verra.

Hættan er sú að þó að nafninu til geti menn krækt sér í aðeins meiri skatttekjur til skamms tíma, með þeim breytingum sem lagðar eru til, séu menn að veikja skattstofnana til lengri tíma, veikja þær undirstöður atvinnulífsins sem eru uppspretta skatttekna, því að það er betra fyrir efnahagskerfið, fyrir atvinnulífið, fyrir skattgreiðendur og líka fyrir ríkissjóð að til verði verðmæti sem víðast í samfélaginu, sem mest verðmæti. Það er betra að taka lægri hlutföll, lægri skatta af stærri skattstofnum en að skattleggja allt í drep. Þegar útgerðin gengur vel er hjólað í útgerðina. Þegar áliðnaðurinn gengur vel er hjólað í áliðnaðinn. Þegar ferðaþjónustan gengur vel er hjólað í ferðaþjónustuna. Svo er sagt: Ja, við erum ríkisstjórn sem styður atvinnuuppbyggingu. Við ætlum að láta 200 milljónir hér í að grænka íslensk fyrirtæki. Við ætlum að vísu að taka 800 milljónir út úr þessari atvinnugrein til að láta menn svo fá 150 milljónir á móti af því við erum svo hlynnt atvinnulífinu. En auðvitað sjá allir í gegnum þetta, hvaða mótsagnir eru í þessu.

Það er sorglegt, hæstv. forseti, að við skulum enn standa í þeim sporum nú örfáum dögum fyrir jól að vera að samþykkja nýjar skattahækkanir af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Það er líka sorglegt að við skulum vera að ganga til atkvæða bráðlega um breytingartillögur sem síðast komu fram í morgun, breytingartillögur við breytingartillögur frá stjórnarmeirihlutanum (Gripið fram í.) — sem komu fram í gær eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson bendir á. Það er sorglegt að við skulum ganga til atkvæða um þetta án þess að nokkur maður, hvorki innan húss né utan, hafi fengið tækifæri til að fara almennilega yfir þessar breytingar, átta sig á afleiðingunum, átta sig á því hvernig þessar reglur koma til með að líta út í framkvæmd. Það er sorglegt að enn og aftur skuli, mér liggur við að segja í skjóli nætur, vera kallað í fulltrúa frá einhverjum atvinnugreinum og þeim gefinn valkosturinn hvort þeir vilji láta hengja sig eða skjóta, hvorn kostinn af tveimur afar slæmum þeir vilji taka.

Þessi vinnubrögð eru, hæstv. forseti, fyrir neðan allar hellur og eru ekki til fyrirmyndar. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt hagkerfi, íslenskt atvinnulíf og uppbyggingu, að horfið verði frá þeirri skattpíningarstefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur rekið.