141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[14:32]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er búið að ræða þetta frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum í þaula. Ljóst er að ekki hefur verið haldið vel á hlutunum. Frumvarpið kemur of seint fram, ekki er ígrundað hvaða áhrif greinar frumvarpsins hafa á hina og þessa hluti í samfélaginu sem hefur leitt til þess að það er verið að hringla með tillögur hér fram á síðustu stund. Í gær komu fram breytingartillögur sem voru kynntar í efnahags- og viðskiptanefnd í gærmorgun. Í dag er komin breytingartillaga við breytingartillögurnar sem voru settar fram í gær. Þetta lýsir í hnotskurn aðferðafræðinni við þetta frumvarp.

Ég ætla svo sem ekkert að rekja lið fyrir lið áhrif einstakra greina. Ég gerði það í 1. umr. Auk þess hefur verið mjög vel fjallað um málsmeðferðina af stjórnarandstöðunni í ræðum hér í gær og í dag.

Það sem ég ætla að gera að umtalsefni — og ætla svo sem ekki mikinn tíma í það vegna þess að nú er farið að síga á seinni hlutann í þessari umræðu — er 3. gr., þ.e. tryggingagjaldið. 3. gr. er í tveim liðum þar sem a-liður gengur út á að sá hluti tryggingagjalds sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs verði lækkaður úr 2,45% í 2,05%, eða um 0,4 prósentustig, og er það vel — þessi skattur fór hæst í 3,91% í ársbyrjun 2010 og endurspeglaði það mikla atvinnuleysi sem var þá — en b-liðurinn er sá hluti almenna tryggingagjaldsins sem tilheyrir tekjuöflunarhluta ríkissjóðs og er hugsaður til þess að vega upp á móti auknum útgjöldum lífeyristrygginga en hann er hækkaður um 0,3 prósentustig, upp í 5,29%, þannig að a- og b-liður verða samtals 7,35%. Á öll laun í landinu leggjast því 7,35% til að standa undir annars vegar atvinnuleysinu og hins vegar almennri tekjuöflun ríkissjóðs og þá sérstaklega útgjöldum til lífeyristrygginga.

Þetta kemur mjög illa niður á atvinnulífinu. Þetta kemur sérstaklega illa niður á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, fyrirtækjunum sem skapa um 90% allra starfa í landinu. Það er sérstaklega alvarlegt vegna þess að þetta hvetur til undanskota, þetta hvetur til svartrar vinnu vegna þess að þetta rekur fleyg á milli launa starfsmanna og þess kostnaðar sem fyrirtækið hefur af störfunum. Þetta er einnig sérstaklega slæmt fyrir mannaflsfrekar greinar. Þá koma fyrst upp í hugann greinar sem byggja á hugviti, t.d. alls konar forritunarfyrirtæki og tölvufyrirtæki sem byggja fyrst og fremst á mannviti fremur en fjármagni. Þetta gerir þeim erfiðara uppdráttar en ella.

Ég tel einsýnt að með öllum ráðum verði að lækka tryggingagjaldið. Tryggingagjaldið ætti að lækka með lækkandi atvinnuleysi og atvinnuleysi ætti að lækka hratt eftir að ný ríkisstjórn tekur við hér á næsta ári, sem kemur fram með efnahagsstefnu sem leiðir til fjárfestinga og ráðningar nýrra starfsmanna. Jafnframt þarf að endurskoða lífeyristryggingakerfið og ná niður kostnaði þar án þess að vega að þeim sem sárast þarfnast lífeyris úr því kerfi.

Það sem ég vildi segja var bara það að ég vildi benda á 3. gr. Það er afar slæmt að hér sé verið að festa tryggingagjaldið enn frekar í sessi með því að færa það yfir í almenna tryggingagjaldið. Svo vil ég benda á að sá gríðarlegi kostnaður sem lítil og meðalstór fyrirtæki og vinnuaflsfrek fyrirtæki hafa af tryggingagjaldinu leiðir til þess fleygs sem ég talaði um áðan og þess að það verður dýrara fyrir fyrirtæki að ráða fólk í vinnu sem leiðir til þess að erfiðara verður að vinna á atvinnuleysinu en ella.

Ég ætlaði ekki að hafa fleiri orð um þetta. Þetta frumvarp hefur verið rætt vel og ítarlega og er búið að benda á fjölmarga galla á því og rekja vel hversu slæleg vinnubrögðin hafa verið.