141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

atvinnuleysistryggingar.

513. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti velferðarnefndar um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa frá velferðarráðuneyti, Félagi atvinnurekenda, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Vinnumálastofnun, BHM og síðan barst nefndinni umsögn frá Alþýðusambandi Íslands.

Frumvarpið er afrakstur samstarfs stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og Vinnumálastofnunar. Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Þar á meðal er lagt til að ráðist verði í sérstakt átak á árinu 2013 sem nefnist Vinna og virkni 2013. Markmið verkefnisins er að virkja atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt eða munu að óbreyttu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins frá september 2012 fram til loka árs 2013 til þátttöku að nýju á vinnumarkaði og koma í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi leiði til óvinnufærni.

Enn fremur er lagt til að ákvæðum laganna um biðtíma og viðurlög verði breytt í þeim tilgangi að leggja enn frekari áherslu á mikilvægi þess að atvinnuleitendur séu í virkri atvinnuleit þann tíma sem þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur. Lagt er til að komi til atvik sem að öðru jöfnu geta leitt til þess að komi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar um biðtíma eða viðurlög þegar atvinnuleitandi hefur samtals fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 30 mánuði eða lengur á sama tímabili eigi hlutaðeigandi ekki frekari rétt til atvinnuleysisbóta á því tímabili. Viðkomandi öðlast þá aftur rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði.

Þá er lögð til breyting frá því almenna skilyrði laganna fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga að umsækjandi um atvinnuleysisbætur skuli hafa náð 16 ára aldri og þetta aldursmark fært í 18 ár. Ávinnsla réttindanna hefst þó áfram við 16 ára aldur þó að rétturinn til að nýta þau myndist ekki fyrr en við 18 ára aldur. Er þessi breyting gerð vegna þess að fólk undir 18 ára aldri telst samkvæmt barnalögunum börn og er á framfæri foreldra samkvæmt þeim lögum og lögræðislögum fram til 18 ára aldurs.

Að lokum eru lagðar til breytingar á lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir að greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fiskvinnslufyrirtækja vegna fiskvinnslufólks sem nýtur kauptryggingar á grundvelli kjarasamninga þegar vinna liggur niðri vegna hráefnisskorts falli niður frá og með 1. janúar 2013. Ekki reyndist unnt að framlengja ákvæðið óbreytt enda mikilvægt að draga úr útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Samkomulag náðist við Starfsgreinasamband Íslands og Samtök fiskvinnslustöðva um hvernig unnt væri að draga úr útgjöldum en tryggja áfram starfsöryggi fiskvinnslufólks.

Í nefndinni var nokkuð rætt um hlutaatvinnuleysisbætur en í kjölfar hrunsins árið 2008 voru lögfestar heimildir til handa Atvinnuleysistryggingasjóði til að greiða hlutabætur til starfsmanna þar sem starfshlutfall hefði verið skert vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði í kjölfar hrunsins. Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að í ljósi aðstæðna þegar þetta ákvæði kom til væri sanngjarnt að draga úr þeim áhrifum sem ákvarðanir vinnuveitenda um skerðingu starfshlutfalls kynnu að hafa á réttindi launafólks innan kerfisins. Því bæri að leggja til að hver dagur sem greiddar væru hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða V á tímabilinu 21. nóvember 2008 til og með 31. desember 2011 teldist sem hálfur dagur af tímabili samkvæmt 29. gr. laganna í stað þess að reiknast sem heill dagur. Var nefndinni bent á að þetta sjónarmið hefði ítrekað komið fram við endurskoðun laganna um atvinnuleysistryggingar frá því að bráðabirgðaákvæðið kom fyrst fram. Tekur nefndin undir þessi sjónarmið og leggur til breytingu þessu til samræmis.

Þá leggur nefndin til tvær breytingar sem fela ekki í sér efnisbreytingu heldur auka skýrleika frumvarpsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með áðurnefndum breytingum. Að nefndaráliti þessu standa Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Kristján L. Möller, Þuríður Backman, Árni Þór Sigurðsson, Guðmundur Steingrímsson og Einar K. Guðfinnsson með fyrirvara, Unnur Brá Konráðsdóttir og Birkir Jón Jónsson.