141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[15:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu. Mig langar einungis að koma hér upp og segja nokkur orð um þetta frumvarp.

Það er verið að breyta lögunum um dómstóla og setja inn hærri aldursákvæði o.fl., eins og farið hefur verið yfir. Það komu gestir fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd og gerðu athugasemdir. Aðallega var rætt um 5. gr. frumvarpsins þar sem er ákvæði um að ef sérstaklega stendur á vegna anna megi ráðherra skipa varadómara samkvæmt tillögu forseta Hæstaréttar til að taka sæti í tilteknu máli við dóminn þótt sæti einskis hæstaréttardómara sé autt vegna vanhæfis, leyfis eða forfalla.

Þegar málið var lagt fram voru áhyggjur um að verið væri að gefa mjög rúma heimild í þá veru. Ég tel að allir hafi sama skilning á málinu og þetta verði ekki notað úr hófi fram nema lagagreinin sé túlkuð þröngt. Ef svo sérstaklega stendur á vegna anna má þetta koma þarna inn. Það er náttúrlega auðvelt að bera fyrir sig önnum og kalla inn nýjan dómara en ég tel að Hæstiréttur og Héraðsdómur séu það vandir að virðingu sinni að til þess komi ekki.

Virðulegi forseti. Ég er tiltölulega ánægð með frumvarpið. Þetta er náttúrlega fyrst og fremst gert til þess að létta álagi á dómstólum og ekki veitir af því málafjöldi hefur aukist mjög, sérstaklega eftir bankahrunið 2008. Ég hef ekki síður bent á að það mætti stórfækka dómsmálum hér á landi ef lagasetning væri örlítið vandaðri og tekið væri tillit til þeirra þátta sem eru augljósir lagagallar á frumvörpum. Batnandi fólki er best að lifa. Ég hef fulla trú á dómstólum og á Alþingi og á því að Alþingi komi til framtíðar til með að bæta sig bæði faglega og fjárhagslega þannig að í framtíðinni verði sett lög sem þurfa alltaf í minna mæli að rata til dómstóla.