141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[15:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við þrír hv. þingmenn, Jón Gunnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og sá sem hér stendur, lögðum fram breytingartillögu við þetta frumvarp. Sú breytingartillaga gekk út á það að fella burtu hin svokölluðu verðmiðlunar- og verðtilfærslugjöld í íslenskum landbúnaði sem fyrst og fremst virka inn í mjólkuriðnaðinn. Þetta eru gjöld sem eru algjörlega barn síns tíma, þjóna í raun engum tilgangi lengur, mælast hins vegar í opinberum stuðningi þegar hann er skoðaður gagnvart íslenskum landbúnaði en hafa ekki beina þýðingu hvorki til hækkunar né lækkunar.

Við sjáum þetta birtast árlega í fjárlögunum. Í fjárlögunum fyrir næsta ár er áætlað að þetta séu um 400 millj. kr. Þetta er inn- og útgreiðsla, hefur engin áhrif á afkomu ríkissjóðs. Með öðrum orðum eru þetta tilefnislaus gjöld. Ég hef áður lagt fram frumvarp í þá veru að leggja þessi gjöld niður. Það náði ekki fram að ganga, var afgreitt úr gömlu sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndinni með atkvæðum allra flokka sem þar sitja nema Samfylkingarinnar. Fulltrúar þeirra voru fjarstaddir þegar það mál var afgreitt en því miður dagaði það uppi hér á Alþingi.

Í morgun sat atvinnuveganefnd á fundi og fór yfir þessa breytingartillögu okkar þremenninganna. Þar var málflutningi okkar afar vel tekið. Málin voru útskýrð af fulltrúa atvinnuvegaráðuneytisins og ég hygg að flestir hafi gert sér grein fyrir því að eðlilegt væri að reyna að afgreiða þetta mál hér og nú. Vegna þess að við erum að fjalla um málið nú á síðustu mínútum þessa þings og hv. þingmenn höfðu ekki haft möguleika til að ræða málið í sinn hóp varð það niðurstaða nefndarinnar og niðurstaða okkar þremenninganna að við mundum kalla aftur þessar breytingartillögur þannig að þær kæmu ekki hér til atkvæðagreiðslu en jafnframt var frá því gengið að eftir áramótin hið fyrsta mundi atvinnuveganefnd setjast yfir málið með það að markmiði að ljúka efnislegri vinnslu þess sem fyrst. Það er öllum ljóst mál að þetta er ekki flókið. Við höfum þegar fengið allar umsagnir, við þekkjum efni þess og það urðu sammæli okkar í morgun að afgreiða málið efnislega, hver svo sem sú efnislega niðurstaða yrði, sem allra fyrst nú eftir áramótin.

Fyrir okkur flutningsmönnum vakti eingöngu eitt, það var að fá þessum lögum breytt í þá veru sem breytingartillögurnar gengu út á. Við erum ekki að kappkosta að það komi til einhvers konar efnislegs uppgjörs við þessa atkvæðagreiðslu vegna málsins núna og þess vegna teljum við brýnna og mikilvægara og líklegra til árangurs fyrir okkar mál að það verði afgreitt með þeim hætti sem við sammæltumst um í morgun. Ég ítreka að við köllum þessar breytingartillögur aftur.