141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U):

Frú forseti. Þetta er í raun og veru tvískipt frumvarp: Annars vegar er í þágu lagalegs samræmis ákvæðum bætt við einstakar greinar laga nr. 61/2012, en þau lög varða breytingar á barnalögum og voru samþykkt í júní sl. — annars vegar er sem sagt bætt við ákvæðum í einstakar greinar þessara laga sem varða heimild til að sækja mál fyrir dómstólum um lögheimili barns. Um þetta fjalla 1., 2. og 3. gr. þessa frumvarps og minni hluti velferðarnefndar, sem stendur að þessu nefndaráliti sem ég er framsögumaður fyrir, gerir ekki athugasemd við þessar greinar og telur mikilvægt að þær verði samþykktar. Hins vegar er í 4. gr. frumvarpsins lagt til að gildistöku umræddra laga, allra laganna, verði frestað til 1. júlí 2013 eða um sex mánuði og á þessa grein fellst minni hlutinn ekki og leggur til að hún verði felld brott. Mig langar að rökstyðja þá tillögu í þessari framsögu.

Á það ber að líta að lög nr. 61/2012, sem voru samþykkt einróma og í góðri sátt í velferðarnefnd 25. júní sl., að ég held, fela í sér ýmsar mjög mikilvægar réttarbætur fyrir börn, foreldra og aðstandendur og þau eiga sér líka nokkurn aðdraganda. Þau varða þann kafla barnalaga sem fjallar um forsjá og umgengni og eru að langmestu leyti samhljóða drögum að frumvarpi sem nefnd á vegum dómsmála- og mannréttindaráðherra skilaði í janúar 2010, fyrir þremur árum.

Meðal nýmæla í þeim er að ákvæði um að réttindi barnsins verði sett inn í barnalög, í samræmi við ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, inntak forsjár og sameiginlegrar forsjár, er gert skýrara, réttur stjúpforeldra og aðstandenda er skýrður sem og réttur forsjárlausra foreldra til upplýsinga um barn sitt, svo að fátt eitt sé nefnt. Þá er líka að finna þarna geysilega mikilvæg ákvæði, réttarfarsleg ákvæði, um heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá, sem eru mikil vatnaskil og tímamót í íslenskri löggjöf í þessum málum. Dómarar fá þarna heimild til að dæma sameiginlega forsjá að gefnum tilteknum skilyrðum, sem eru rakin í lögunum. Þetta er líka heimild til aðfarar vegna brots á umgengni eða umgengnisrétti og heimild til að skera sérstaklega úr um fyrir dómi hvar lögheimili barns skuli vera. Þetta eru allt mjög mikilvæg mál.

Öll hafa þessi ákvæði mjög mikilvæg réttarfarsleg áhrif og mega teljast miklar réttarbætur. Það er að mati minni hlutans gríðarlega mikilvægt að almenningur geti treyst því að ákvæði með slíkum réttarfarslegum áhrifum, sem geta varðað erfið tilfinningamál fólks og flókin ágreiningsmál — og mér er kunnugt um dæmi — öðlist gildi á fyrirsjáanlegan og gagnsæjan hátt og að hægt sé að treysta því að ákvarðanir löggjafans í þeim efnum standi. Löggjafinn hefur sagt að þessar réttarfarsbreytingar skuli taka gildi 1. janúar 2013. Það er fólk í þjóðfélaginu sem á í erfiðum forræðismálum sem hefur gengið út frá því að þetta standi. Svona ákvarðanir verða að standa nema veigamikil rök séu fyrir því að þær standi ekki. Ef fresta á slíkum ákvæðum þurfa að vera fyrir því ákaflega traustar röksemdir og það er mat minni hlutans að þær skorti hér.

Rökin fyrir því að fresta eigi gildistöku frumvarpsins og allra þessara réttarbóta eru einkum þau að ekki sé hægt að hefja framkvæmd mikilvægra verkefna sem sýslumönnum eru falin í lögunum fyrr en 1. júlí. Nú skulum við fara aðeins yfir þetta, minni hlutinn dregur þetta mjög í efa. Hér er um að ræða innleiðingu ákvæða um ráðgjöf og sáttameðferð og ákvæða um að sérfræðingar í málefnum barna, á vegum sýslumanna, veiti umsagnir í umgengnismálum og sinni eftirliti í stað barnaverndarnefnda. Sem sagt sáttameðferð og ráðgjöf skal innleidd á ákveðinn hátt á vegum sýslumanna og það er tilflutningur á verkefnum frá barnaverndarnefndum til sýslumanna.

Varðandi sáttameðferðina og ráðgjöfina: Það er vissulega mjög mikilvægt atriði í lögum nr. 61/2012 að það á að koma á sérstakri sáttameðferð, það er rakið í 12. gr. og einnig er ráðgjöfin rakin í 11. gr. Sáttameðferðin felur í sem stystu máli í sér að áður en krafist er úrskurðar eða höfðað mál um forsjá, umgengni eða dagsektir, og einnig lögheimili og aðför, er foreldrum skylt að leita sátta. Sýslumaður skal bjóða aðilum slíkra mála sáttameðferð en foreldrar geta einnig leitað annað. Sáttameðferð skal annaðhvort lokið með samningi eða með vottorði um að sátta hafi verið leitað og ráðherra er síðan falið að setja nánari reglur um sáttameðferð.

Menn tala dálítið í þessu máli eins og sáttameðferð sé ekki fyrir hendi á Íslandi og að frumvarpið feli í sér að henni skuli komið á nánast frá grunni. Þetta er ekki svo. Nú þegar bjóða sýslumenn út um allt land, á grunni gildandi laga, sérfræðiráðgjöf sálfræðinga til foreldra í erfiðum ágreiningsmálum til að leita þeirra bestu lausna af sjónarhóli barnsins og það er í eðli sínu sáttameðferð. Auðvitað geta sýslumenn haldið áfram að bjóða þessa tegund undir merkjum nýrrar sáttameðferðar 1. janúar nk., ég held að það hljóti að vera. Það voru 175 slík mál á vegum sýslumanna úti um allt land árið 2009 þannig að þetta er náttúrlega fyrir hendi og auk þess gerir ákvæðið um sáttameðferð ráð fyrir því að foreldrar geti leitað annað og fjölmargir aðilar í einkageiranum hér á landi bjóða upp á viðurkennda sáttameðferð.

Ljóst er líka að framkvæmd sáttameðferðar af þessu tagi getur verið með ýmsum hætti. Það er að mati minni hlutans alls ekki nógu vel rökstutt að sáttameðferð geti ekki staðið til boða 1. janúar 2013, sérstaklega í ljósi þess að verið er að bjóða upp á hana nú þegar bæði á vegum sýslumanna og úti í samfélaginu með viðurkenndu móti.

Auðvitað er sáttameðferðarskyldan, eins og hún er innleidd í frumvarpinu, mikið framfaramál, en þá vil ég líka vísa í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins með frumvarpinu og benda á þessi lykilorð, með leyfi forseta:

„… innanríkisráðuneytið muni þróa þessi úrræði og þjónustu smám saman.“

Þetta er auðvitað ákveðið lykilatriði.

Það er mjög mikilvægt að sáttameðferðin sé góð og ráðgjafarþjónustan sé góð, en þetta eru í eðli sínu ákvæði eða þjónusta sem verður að þróa yfir tíma og vonandi verður hún alltaf undirseld stöðugum betrumbótum. Hún er fyrir hendi núna með ákveðnum hætti sem sérfræðiráðgjöf á vegum sýslumanna og sem þjónusta í einkageiranum víða í samfélaginu. Við getum byrjað, það er ekkert því til fyrirstöðu, að mati okkar sem að þessu nefndaráliti stöndum, en svo verður auðvitað að betrumbæta þessa þjónustu.

Það vekur athygli mína að innanríkisráðuneytið, samkvæmt ummælum gests sem kom fyrir nefndina, er ekki komið neitt sérstaklega langt á veg með að þróa endanlegt eða fullbúið hugtak yfir það hvernig þessi þjónusta á að líta út. Þá er alveg eins gott að byrja núna á grunni þeirrar þjónustu sem þegar er veitt og að sjálfsögðu betrumbæta hana með tíð og tíma, og vonandi verður hún sem best. Þetta er auðvitað vel hægt.

Síðan er það visst aðalatriði að við séum ekki að binda gildistíma mjög mikilvægra réttarbóta, þeirra réttarbóta sem ég rakti hér áðan, við það hvenær þetta þjónustuform, sáttameðferð og ráðgjöf, telst á einhvern hátt fullbúið. Þetta er í eðli sínu þjónustuform sem verður þróað og betrumbætt og við getum ekki — og það var talað hér áðan um réttaróvissu — skapað þá réttaróvissu í landinu að þessar réttarbætur verði látnar fylgja því hvenær þetta þjónustuform telst á einhvern hátt fullbúið. Það er ekki hægt og við getum ekki skapað það fordæmi hér og nú.

Það er athyglisvert að röksemdirnar fyrir frestun gildistökunnar virðast vera tvenns konar og þetta er svolítið óljóst. Annars vegar er því haldið fram að sáttameðferðin — aðallega sáttameðferðin sem ég hef rakið hér, sem er mikilvæg — sé ekki útfærð. Eins og ég hef rakið er hún í veigamiklum þáttum þegar til staðar í kerfinu. En því er sem sagt haldið fram á einhvern hátt að hún sé ekki útfærð, gott og vel. Ég held að það sé alveg rétt að það eigi eftir að þróa hana og betrumbæta en ég held að það sé ásigkomulag sem við verðum í um nokkurt skeið.

Hins vegar er því haldið fram að ekki sé til nægilegt fé til að standa straum af nýjum verkefnum sem þessar breytingar á barnalögum sem við samþykktum í júní fela í sér. Þessar röksemdir tvær virðast mér reyndar nokkuð ósamrýmanlegar. Annars vegar er því haldið fram — og þetta kom fram í máli hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur hér áðan — að ekki sé búið að útfæra þjónustuna en samt er því haldið fram að ekki sé til fé í hana. Þetta hljómar mótsagnakennt.

Ef ekki er búið að útfæra þjónustuna, ef innanríkisráðuneytið vill halda því fram að ekki sé búið að útfæra þjónustuna, hvernig er þá hægt að meta hvað hún kostar? Og hvernig er þá hægt að halda því fram að ekki sé til peningur í hana? Þetta finnst mér eiginlega óviðunandi — og ekkert eiginlega, mér finnst þetta óviðunandi málflutningur. Ef halda á því fram að ekki sé til peningur í þetta verður að byggja það á einhverju kostnaðarmati. Það liggur ekki fyrir, alla vega ekki í þessari atrennu — nema þó, og nú skulum við tala um fjármálin sérstaklega, það liggur fyrir kostnaðarmat í umsögn með þessu frumvarpi, sem er sama umsögn og var með frumvarpinu til breytinga á barnalögum sem við samþykktum í júní. Þar kemur fjárlagaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins með kostnaðarmat á þessu öllu saman.

Þar er sagt, og það er mjög athyglisvert, að sáttameðferðin sem slík, sáttameðferðarskyldan, muni kosta nokkurn veginn það sama og sérfræðiþjónusta sálfræðinga sem sýslumenn eru að bjóða upp á úti um allt land, það jafnist nokkurn veginn út, enda er þetta mjög áþekk þjónusta. Sýslumenn voru árið 2009 að bjóða 175 foreldrum í vandræðum þessa þjónustu úti um allt land.

Síðan er vitnað í gögn frá innanríkisráðuneytinu og sagt að þjónustan, aukin ráðgjafarþjónusta til foreldra, muni fela í sér þrjú ný stöðugildi til sýslumanna og það er metið á 22 millj. kr. Síðan er fallist á það sjónarmið, sem sagt er koma frá innanríkisráðuneytinu, að tilflutningur verkefna, tiltekinna eftirlitsverkefna í umgengnismálum frá barnaverndarnefndum til sérfræðinga á vegum sýslumanna, muni fela í sér 2,5 stöðugildi hjá sýslumönnum. Þetta eru sem sagt 5,5 stöðugildi og heildarkostnaður samkvæmt fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, við þessar breytingar á barnalögum og alla þá nýju þjónustu sem þær eiga að fela í sér, er á bilinu 35–40 millj. kr. Þetta er eina kostnaðarmatið sem ég hef séð í þessu máli og mér finnst þetta nokkuð traustvekjandi og sannfærandi kostnaðarmat.

Mér finnst því undarlegt þegar það er síðan sagt fullum fetum í greinargerð með frumvarpinu, og er sögð ein ástæðan fyrir því að fresta verði gildistöku allra laganna — innanríkisráðuneytið segir þó að til verkefnisins séu 30 millj. kr. á þessu ári. Annars vegar höfum við því kostnaðarmat frá fjárlagaskrifstofunni upp á 35–40 millj. kr. og hins vegar áætlun innanríkisráðuneytisins um að verja til þessara verkefna 30 millj. kr.

Hér, hæstv. forseti, ber ekki mjög mikið á milli, finnst mér, alls ekki nógu mikið til að réttlætanlegt sé að fresta gildistöku mjög mikilla réttarbóta á grunni þess að skortur sé á fjármagni. Kostnaðarmatið er 35–40, peningarnir sem liggja fyrir eru 30. Hér er því fiskur undir steini, verð ég að segja. Hvort sem menn halda því fram að fjármagn vanti í þetta og þess vegna verði að fresta gildistöku laganna eða þá að þeir séu ekki tilbúnir með útfærslu á þessu er hvort tveggja mjög ósannfærandi.

Einnig má horfa til þess að ef því er virkilega haldið fram að þetta þjónustuform sé ekki undirbúið innan ráðuneytisins verður að vekja máls á því hvort ekki sé undarlegt að svo sé. Tillögur um sáttameðferð, tillögur um að auka ráðgjöf til foreldra og tillögur um að færa þessi verkefni frá barnaverndarnefndum til sýslumanna lágu fyrir alskapaðar, fullskapaðar, innan ráðuneytis dómsmála og mannréttinda í janúar 2010, og þessum áformum var almennt fagnað, alls staðar. Þetta voru taldar góðar hugmyndir. Þrjú ár eru liðin frá því það var og mér finnst verulega ósannfærandi, og eiginlega umræðuefni í sjálfu sér, ef ráðuneytið telur sig ekki vera tilbúið með útfærslu á þessu og sérstaklega í ljósi þess að verið er að stunda sáttameðferðir, bæði á vegum sýslumanna og einkageirans, úti um allt samfélag.

Minni hlutinn kemst því að þeirri niðurstöðu að það sé algjör óþarfi að fresta gildistöku þessara laga. Ef menn mundu hins vegar endilega vilja fresta sáttameðferðinni, vegna þess að þeir vildu á einhvern hátt útfæra hana betur og fresta nýjum ákvæðum um ráðgjöf, sem þó eru mjög keimlík þeim ákvæðum um ráðgjöf sem þegar eru fyrir hendi, og fresta tilfærslu verkefna frá barnaverndarnefndum til sýslumanna, væri hægt að gera það sérstaklega, ég sé ekki betur. Það var aldrei rökstutt almennilega af neinni dýpt í meðförum nefndarinnar af hverju í ósköpunum, ef menn hefðu áhyggjur af sáttameðferðinni, þyrfti að fresta gildistöku allra laganna. Ég sé ekki betur en að ef menn hefðu áhyggjur af sáttameðferðinni og tilfærslu verkefna frá barnaverndarnefndum til sýslumanna hefði einfaldlega verið hægt að fresta 11. gr., 12. gr., 2. mgr. 18. gr. og a-lið 26. gr. í lögum nr. 61/2012. Þar með væri þessum afmörkuðu greinum, sem varða hina nýju sáttameðferð og tilflutning verkefna frá barnaverndarnefndum til sýslumanna, frestað. Þetta er vel hægt, en ekki gafst tóm til þess í nefndinni að ræða þetta af neinni dýpt.

Að síðustu ætla ég að koma að athugasemdum mínum og okkar sem stöndum að þessu nefndaráliti við málsmeðferðina hér. Eins og hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir kom inn á áðan hefur hæstv. ráðherra gert mönnum það ljóst hér úti í þjóðfélaginu, og ég hef sjálfur orðið vitni að því, að þessum lögum öllum yrði frestað. Maður fór að heyra kvitt um það sem fulltrúi í velferðarnefnd að þeim yrði frestað og fór að heyra kvitt um þetta snemma í haust. Ég varð vitni að því þegar hæstv. ráðherra lýsti því yfir á opnum fundi 8. nóvember að hann hygðist fresta gildistöku þessara laga.

Þá spyr ég: Eru orð ráðherrans lög, er það svo að orð ráðherrans séu lög? Nægir það að hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson fari um og segi fólki að lögunum verði frestað? Ég leyfi mér að gera alvarlegar athugasemdir við þetta og sérstaklega í ljósi þess að málið er síðan lagt hér fram á síðasta degi útbýtingar 30. nóvember sl. Það kemur til meðferðar í velferðarnefnd 14. desember og tóm gefst til þess að halda um það tvo fundi, að ég held, kannski þrjá. Það gafst tóm til að fá tvo gesti, annan frá ráðuneytinu og hinn sérfræðing sem kom hingað í 20 mínútur í fundarhléi og ekkert tóm gafst til að ræða við hann af neinni dýpt um alls konar álitamál þessu tengd. Þetta eru algjörlega ólíðandi vinnubrögð, þetta er mjög umdeilanlegt. Það á að fresta mjög mikilvægum réttarbótum og það er ekki hægt að gera það svona.

Minni hlutinn leggur því einfaldlega röksemdir sínar hér á borðið. Við fáum ekki betur séð en það þurfi ekki að fresta þessu. Það mun ekkert hrikalegt gerast þó að þessu verði ekki frestað. Sáttameðferð er í boði mjög víða í samfélaginu og hún mun vonandi halda áfram að þróast og betrumbætast. Minni hlutinn leggur því til að fyrirliggjandi frumvarp verði samþykkt en með eftirfarandi veigamikilli breytingu, að 4. gr., sem fjallar um frestun á öllum gildisákvæðum laganna, falli brott.

Undir þetta skrifa ég, Eygló Harðardóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir.