141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu og rökstuðning. Við deilum því að vera mjög ánægð með þau lög sem við samþykktum einróma hér í þingsal í júní sl. og erum bæði mjög ósátt við að það þurfi að fresta þeim. Þó að það séum að sjálfsögðu bara við hér í þingsal sem getum síðan tekið ákvörðun um það þá tel ég, eftir að vera búin að heyra að það hefur í raun og veru legið í loftinu að fresta ætti þessum lögum, að það hefði leitt til þess að í kerfinu er það vinnulag komið á. Þar er ég á annarri skoðun en hv. þingmaður og vil gjarnan heyra hans álit. Það er sem sagt annar hlutur sem ég held að geti orðið til þess að við verðum því miður að fresta þessum lögum, jafnsorglegt og það er. Þess vegna reynum við að finna þennan milliveg með því að stytta frestunina.

Það sem sannfærði mig síðan endanlega um að við þyrftum að gera þetta var heimsókn eins okkar helsta sérfræðings í barnarétti, Hrefnu Friðriksdóttur lektors við Háskóla Íslands, sem hefur mjög mikið unnið að barnaverndarmálum. Hún var okkar helsti ráðgjafi og við tókum mikið mark á því sem hún hefur skrifað og sagt um hvernig barnalög eiga að vera þegar við vorum að koma þessum lögum á sl. ár.

Hún var mjög ákveðin í því að hún teldi að sáttameðferðin væri ekki tilbúin og menn úti í feltinu væru almennt ekki tilbúnir. Þess vegna sagði hún: Ég held að það sé rétt að þið frestið þessu. Ég held að við verðum bara að gera það. En hún sagði jafnframt: Ég hugsa að það dugi að það sé í þrjá mánuði. Síðan sagði hún jafnframt: Vegna þess hve lagaákvæðin fara mikið hvert inn í annað þá held ég að ekki sé gott að fresta einstökum ákvæðum. (Forseti hringir.) Mér þætti mjög vænt um að fá mat hv. þingmanns á þessum ábendingum Hrefnu Friðriksdóttur.