141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki eins og við hv. þingmaður séum mjög ósammála í þessu máli heldur snýst það í raun og veru um þrjá mánuði til eða frá. Það snýst um hvort það væri eðlilegt að við tækjum þessa þrjá mánuði til þess að skoða málið sérstaklega til þess að það sé fullbúið.

Mig langar til þess að benda á að sá ráðgjafi eða sá gestur sem við fengum fyrir nefndina þekkir barnalögin sennilega betur en nokkur annar. Þó að hún, af sinni faglegu ábyrgð, hafi ákveðið að hún vildi ekki segja nákvæmlega til um hvernig væri að taka ákveðin atriði út, þá sagði hún: Ég tel það ekki vera. Og ég held að við verðum að taka það mjög hátíðlega.

Mig langar til þess að árétta að að sjálfsögðu er það Alþingi Íslendinga sem setur lög. Þess utan þurfum við að hafa aðhald með framkvæmdarvaldinu. Það er greinilegt að á einhvern hátt höfum við hugsanlega brugðist í því hlutverki okkar með því að spyrjast fyrir um hvernig þetta mál væri vaxið. Það er alla vega alveg ljóst að ef málinu verður frestað þá höfum við tilefni til þess að fylgjast afar vel með því hvernig er unnið að málinu og munum gera það þessa þrjá mánuði sem því yrði frestað. Þá sinnum við líka öðru hlutverki okkar sem er það að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Því hlutverki mundi ég mjög gjarnan vilja fá að gegna með hv. þingmanni.