141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst nánast ekki réttlátt að tala hér um hvað ákveðinn sérfræðingur sagði á mjög stuttum fundi velferðarnefndar þar sem gafst einfaldlega ekkert tóm til þess að ræða málið af neinni dýpt. Til dæmis var hún ekki spurð að því hvort sú sáttameðferð sem væri þegar í boði gæti uppfyllt skilyrði 12. gr. laganna, sem fjallar um sáttameðferð. Það er meginröksemd okkar í minni hlutanum að það sem er í boði núna geti uppfyllt þessi skilyrði, en verði að sjálfsögðu síðan betrumbætt.

Síðan vil ég ræða þetta aðeins. Er í lagi að fresta þessu um þrjá mánuði? Ég ítreka þetta grundvallaratriði. Þetta eru veigamiklar réttarbætur, veigamikil réttarfarsleg atriði sem við ákváðum að tækju gildi 1. janúar 2013. Það á ekkert að spila eða hringla með það. Fyrir því verða að vera afskaplega veigamikil rök. Þau eru ekki fyrir hendi. Ef við ætlum að skapa þetta fordæmi núna, hvað gerist þá 1. apríl ef þjónustuformið er á einhvern óljósan hátt ekki tilbúið? Mér finnst verulega líklegt að það verði ekki tilbúið þá, vegna þess að fulltrúi ráðuneytisins gat á þessum tímapunkti ekki svarað því hvernig þetta þjónustuform ætti að vera. Hún lýsti því yfir að ráðuneytið væri komið tiltölulega skammt á veg. Eigum við þá að bíða með réttarfarsbæturnar og öll þessi lagalegu ákvæði þangað til þetta er orðið alveg kýrskýrt í ráðuneytinu? Þó svo að ráðuneytið hafi haft þrjú ár, ef ekki meira, til þess að þróa þessa þjónustu. Hvaða réttarfarsóvissuleiðangur erum við þá að bjóða þegnum þessa lands upp á?

Að sjálfsögðu látum við ákvæðin taka gildi 1. janúar eins og við ákváðum, við nýtum okkur þá þjónustu sem þegar er fyrir hendi í þessum efnum (Forseti hringir.) og svo betrumbætum við hana.