141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:16]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla nú ekki að halda langa ræðu um þetta mál um breytingu á barnalögunum. Ég ætla að taka aðeins til máls um þá frestun sem stendur til af meiri hlutanum og er lögð til af ráðherra en sem betur fer styttir nefndin hana um helming.

Ég er mjög ósátt við þetta og finnst það gríðarleg vonbrigði. Það er fjöldi manns sem bíður eftir þessari réttarbót. Málið er viðkvæmt og snýst um fólk, börn og fjölskyldur þeirra. Mér finnst eiginlega óafsakanlegt að fresta málinu og eins óafsakanlegt að gefa það út að því verði frestað áður en Alþingi er búið að ákveða að gera það, Alþingi er löggjafinn. Ég held að vilji sé allt sem þarf í þessu máli og kannski er það einmitt hann sem skortir.

Ég mun ekki styðja þessa frestun og legg til að hún verði felld.