141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að koma aðeins upp í umræðu um þetta mál eftir að hafa hlustað á þær ræður sem hafa verið fluttar í tengslum við tillöguna sem liggur fyrir frá meiri hluta velferðarnefndar um að breyta frumvarpi innanríkisráðherra sem varðar frestun á gildistöku barnalaganna til 1. júlí 2013. Meiri hluti velferðarnefndar leggur til að þeirri dagsetningu verði breytt í 1. apríl, þ.e. að lögin öðlist gildi fyrr en frumvarp innanríkisráðherra gerir ráð fyrir.

Það er okkur öllum vonbrigði að þetta frumvarp geti ekki orðið að lögum núna um áramótin eins og til stóð. (Gripið fram í: Það getur það alveg.) Fullyrðingar manna sem koma hér og tala eru algerlega út í bláinn. Þeir hafa ekki kynnt sér málið eða vilja ekki hlusta á þá sérfræðinga sem fjalla um það og hafa farið ítarlega yfir það með okkur hvers vegna og hvaða réttaróvissa skapast fyrir þá sem við eiga að búa ef ekki verður brugðist við með þeim hætti sem er lagt til. Við vonumst til að fella þetta mál segja menn, og hvað svo? Hvað eru þeir þá að leiða yfir þá sem eiga að búa við þessi lög og að sjálfsögðu njóta góðs af því þegar þau öðlast að fullu gildi? (Gripið fram í: Þetta er Vinstri grænum til skammar.) Það er bara kjaftæði hjá hv. þingmanni. Hann á að skammast sín fyrir að tala svona.

Síðan kemur (Gripið fram í.) til dæmis hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og ber það á borð að málið snúist bara um að innanríkisráðherra hafi verið andsnúinn tilteknum þáttum frumvarpsins og þess vegna hafi ekkert verið unnið í ráðuneytinu. Ég vil mótmæla því harðlega. Mér er vel kunnugt um að hæstv. innanríkisráðherra hafði tilteknar skoðanir á ákveðnum þáttum málsins. Hann var alls ekkert ósáttur við frumvarpið í heildina enda flutti hann það. Það voru tilteknar breytingar sem nefndin gerði sem hann var ekki endilega sammála en að sjálfsögðu varð frumvarpið að lögum og að sjálfsögðu vinnur ráðuneytið að því að hrinda þeim í framkvæmd í samræmi við þau fyrirmæli sem lögin geyma. Auðvitað hefur það verið gert.

Það kom fram hjá lögfræðingi Barnaverndarstofu sem kom fyrir velferðarnefndina að það hafi í raun mátt segja það strax í upphafi að það þyrfti lengri tíma til undirbúnings heldur en gert var ráð fyrir. Það má spyrja sig af hverju ekki var tekið mark á því strax á þeim tíma af hálfu löggjafans. Menn geta velt því fyrir sér en hér voru sett ákvæði um gildistöku laganna.

Ég vil bara undirstrika að ég er algjörlega sammála því sem kemur fram í nefndaráliti og því viðhorfi sem hefur komið fram hjá hv. þingmönnum Guðmundi Steingrímssyni, Unni Brá Konráðsdóttur og fleirum sem hafa tekið til máls, bæði á vettvangi nefndarinnar og hér. Það er mjög bagalegt að við séum í þeirri stöðu að lögin taki ekki gildi um áramót ef fram fer sem horfir. Ég er algjörlega sammála því en ég er ekki sammála því mati að hægt sé að láta eins og ekkert sé og hægt að láta kylfu ráða kasti um það hvað gerist og hvaða réttarástand skapast um áramótin ef lögin taka gildi og það verður ekki hægt að innleiða þau með þeim hætti sem upphaflega var gert ráð fyrir. Það er sú staða sem ég held að blasi við mörgum sem við eiga að búa og hún sé miklu lakari en það skref sem meiri hluti velferðarnefndar leggur þó til, að fresta gildistöku laganna til 1. apríl. Menn verða að bera ábyrgð á atkvæði sínu hér í þingsal, líka þeir sem ætla að vera á rauða takkanum og segja nei.