141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:26]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Alþingi er að gera það núna, fjalla um gildistöku þessara laga. Það liggur fyrir frumvarp frá ráðherra um að fresta gildistöku laganna til 1. júlí 2013. Meiri hluti velferðarnefndar hefur lagt það til eftir umfjöllun í nefndinni og gestakomur að stytta þann tíma til 1. apríl. Ég hef rakið það hér. Ég tel mjög bagalegt að ekki hafi verið hægt að ganga þannig frá hnútum að lögin tækju gildi eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Vonandi verður alla vega einhver skýr niðurstaða í þinginu, hver svo sem hún verður þegar upp er staðið að lokinni atkvæðagreiðslu.

Ég er að vísa meðal annars til heimsóknar sérfræðings í þessum málaflokki sem kom fyrir nefndina. Hv. þingmaður sagði að það hefði verið gert í fundarhléi og hefði ekki verið löng heimsókn. Það er vissulega rétt en hún var mjög gagnleg að mínu viti þar sem einn helsti sérfræðingur okkar á því málasviði sem vinnur í innleiðingunni á þessum lögum fór mjög rækilega yfir hvaða vankantar væru bæði á innleiðingu tímasetningarinnar og á þeirri hugmynd að skipta þessu upp, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson var með hugmyndir um og hefur fært rökstuðning sinn fyrir en ég er ekki sammála. Þannig að ég er að vísa til þess að þeir sem eru að vinna í þessum málum vara okkur eindregið við því að kljúfa þau í sundur eins og ákveðnar hugmyndir eru uppi um og þeir segja: Við þurfum þennan tíma sem hér er lagt til.

Ég kýs að taka mark á viðhorfum þeirra sérfræðinga sem vinna að málinu. Ég tel að þeir hafi að minnsta kosti betri innsýn í stöðu málsins en ég hef. Eins og ég segi kýs ég að reiða mig á það álit og styð það.