141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir tveimur mælskubrögðum í máli hv. þingmanns. Hann segir að hann vísi meðal annars í álit þessa sérfræðings. Meðal annars? Það var enginn annar sérfræðingur sem kom fyrir nefndina, það var bara þessi. Það er ekki hægt að segja meðal annars. Segir hann sérfræðinga? Það voru ekkert margir sérfræðingar. Annars vegar var það fulltrúi ráðuneytisins sem kom ekki sem sérfræðingur í málinu og hins vegar Hrefna Friðriksdóttir sem kom vissulega í 20 mínútur.

Ég endurtek að mér finnst mjög ósanngjarnt að vísa í það samtal sem einhvern allsherjarrökstuðning fyrir þessu frumvarpi og frestun gildistökunnar. Þetta 20 mínútna samtal í fundarhléi var ekki næstum því nógu yfirgripsmikið til þess að hægt sé að nota það sem einhverja röksemd.

Meiri hluti velferðarnefndar verður að rökstyðja að það yrði eitthvert meiri háttar glapræði fyrir kerfið, eins og það er orðað, að lögin taki gildi 1. janúar 2013.

Við höfum haldið því fram í nefndaráliti að það sé þegar verið að bjóða þessa þjónustu. Sú þjónusta fellur vel undir ákvæðið um sáttameðferð sem getið er í 12. gr. laganna. Það er þegar verið að bjóða þá sérfræðiráðgjöf út um allt þjóðfélag og einkageirinn býður líka upp á hana. Hvort við sjáum þessa þjónustu, sáttameðferðina, á einhvern hátt sem betri eða batnandi með tímanum er hins vegar önnur saga. Að sjálfsögðu viljum við bæta þjónustuna en við munum alltaf gera það.

Lykilatriðið er að hún er til staðar. Það eru þess vegna engin sterk rök fyrir því að fresta gildistöku ákvæðanna. Eins og ég rakti í máli mínu er fjármagnið líka til staðar vegna þess að kostnaðarmat fjárlagaskrifstofunnar til að koma á þessari þjónustu hljóðar upp á 35–40 milljónir. Það eru 30 milljónir til verkefnisins samkvæmt innanríkisráðuneytinu. Hér ber ekki nógu mikið á milli (Forseti hringir.) kostnaðarmats og áætlunar til þess að réttlætanlegt sé á nokkurn hátt að fresta (Forseti hringir.) gildistöku þessarar réttarbótar.