141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er stundum þannig hér í umræðum í þessum sal að fólki hleypur kapp í kinn. Ég vonast til að þannig hafi það verið þegar hv. þingmaður talaði um að við sem töluðum í þessari umræðu vissum ekkert um hvað við værum að tala.

Í núgildandi lögum er ákvæði um sáttameðferð. Það er ekki eins og sýslumannsembættin viti ekkert um hvað sáttameðferð snúist eða kunni ekkert á hana eða þekki ekki til hvers hún skuli notuð. Nú er hins vegar verið að leggja til það nýmæli að ráðgjafar- og sáttameðferðin verði í raun tvískipt eins og birtist í nefndaráliti okkar sem við skrifuðum á síðasta þingi. Þess vegna tel ég að menn sem eiga að framkvæma þessi lög geti gert það. Ég hef trú á því að það sé hægt. Við sem störfum hér í þinginu þurfum oft að vega saman hagsmuni. Við höfum hér frumvarp sem við samþykktum sem lög í fyrra sem fjallar um ýmis atriði, mörg mikilvæg réttindi barna, foreldra og annarra aðstandenda barna.

Ég spyr hv. þingmann: Hvað réttlætir frestun á öllum þeim ákvæðum þó að ráðuneytið sé ekki búið að skrifa reglurnar um það hvernig sáttameðferðin eigi nákvæmlega að fara fram? Það er nefnilega ekki búið að færa nein rök fyrir því af hverju það þarf að fresta þessu öllu saman. Ég tel að ekki þurfi að fresta þessu.

Ég hvatti til þess í nefndinni að við mundum setjast yfir ákvæðin og athuga hvort við værum á réttri leið með því að fylgja þessu frumvarpi ráðherrans. Ég tel svo einfaldlega ekki vera. Þess vegna veg ég þá hagsmuni meiri að lögin taki gildi um áramótin heldur en þá að fresta þeim af því að kerfið er ekki tilbúið. Kerfið á að þjónusta fólk en ekki öfugt.