141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Lögin eru framhlaðin rétt eins og þau voru þegar þau voru lögfest á sínum tíma og eins og ég fór yfir og endurtek munu 1,08% tryggingagjaldsins standa undir þessum greiðslum.

Fæðingarorlof er greitt sem hluti af almannatryggingakerfum í Evrópu og víðar í heiminum út af hagsmunum barna, því að það er gríðarlega mikilvægt að nýfædd börn og börn í frumbernsku njóti umönnunar sinna nánustu. Þess vegna hafa þessi kerfi verið lögleidd víðs vegar um heiminn. Við Íslendingar höfum verið svo forsjál að við höfum tryggt þetta, sem er að sjálfsögðu frummarkmið laganna, en við höfum jafnframt litið til þess að fæðingarorlofið ýti undir jafnrétti. Ég sem femínisti tel gríðarlega mikilvægt að fæðingarorlofið þjóni hagsmunum barna en að það sé jafnframt eitt af þeim tækjum sem við höfum til þess að ýta undir jafnrétti í íslensku samfélagi. Það er gott fyrir alla, ekki síst fyrir nýfædd börn.

Það er mikil tvíhyggja að líta svo á að lög þjóni fyrst og fremst einum hagsmunum og öðrum til vara. Ég held að þegar um ungbarnafjölskyldur er að ræða sé mjög sterkt samband á milli hagsmuna barns og foreldra fyrir alla fjölskylduheildina. Við lögðum til breytingu á lengingunni til að þjóna jafnréttishagsmununum, en jafnframt til að tryggja börnum meiri tíma með feðrum sínum.