141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[18:24]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál, fæðingar- og foreldraorlof, á rætur að rekja til ársins 2000 eins og menn þekkja trúlega hér. Þegar það var sett á laggirnar fyrst kom fram gagnrýni af ýmsum toga um fyrirbærið sjálft, fæðingar- og foreldraorlof, og hvernig greiðslum til foreldra yrði háttað. Meðal annars kom fram gagnrýni á ýmiss konar misnotkunarmöguleika og óréttlæti sem fælist í tekjutengingunni sem var þá, þegar barnabætur voru ákveðin prósenta af launum óháð launafjárhæð. Menn nefndu að með því væri fæðingar- og foreldraorlof í raun styrkur til hinna tekjuháu á atvinnumarkaði. Einnig kom fram gagnrýni við það fyrirkomulag að ekki væri á valdi foreldra að skipta réttinum til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á milli sín eins og þeim hentaði hverju sinni.

Þessi gagnrýni náði ekki til Alþingis á þeim tíma. Fæðingarorlofsfyrirkomulagið hefur verið þeim hætti að menn fá greitt — upphaflega fengu menn reyndar greitt algjörlega óháð tekjum, þeir fengu ákveðið hlutfall af tekjum sínum óháð tekjunum og ekkert þak var á fæðingarorlofinu. Tilgangurinn helgaði á þessum tíma meðalið. Hver var tilgangurinn? Hann var jafnréttisbarátta, eins og fram kom í máli hv. flutningsmanns frumvarpsins, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Fæðingar- og foreldraorlofið er ákveðið jafnréttistæki, eins og hún nefndi. Svo því sé haldið til haga þá nefndi hún líka að orlofið snerist einnig um hagsmuni barnsins.

Af fyrirkomulaginu má ljóst vera að hagsmunir barnsins hafa ekki verið hafðir í fyrirrúmi. Nú liggur fyrir að þetta jafnréttistæki, sem við skulum kalla, er dýrt. Þetta er dýrt tæki og kostnaðurinn hefur jafnan verið gríðarlega vanmetinn. Ég rifja upp að þegar fyrsta frumvarpið um þetta mál var lagt fram, umsögn frá fjárlagaskrifstofu fylgdi með því, var áætlað frá sjálfu fjármálaráðuneytinu að þetta nýja fyrirkomulag mundi einungis auka útgjöld ríkisins um 2 milljarða. Þetta var árið 2000. Auðvitað var bent á það á sínum tíma og augljóst mátti vera að þetta var vanmetinn kostnaður. Strax á næsta ári var kostnaðurinn kominn hátt í 5 milljarða og hefur farið sívaxandi æ síðan. Það var ekki fyrr en í harðbakkann sló árið 2008 að menn viðurkenndu þennan gríðarlega kostnað og að ekkert ríki getur borið svona bótakerfi uppi án þess að eitthvað annað láti undan. Þess vegna var það fagnaðarefni á sínum tíma þegar sett var þak á þessar greiðslur og greiðslur úr sjóðnum þannig takmarkaðar.

Ég vil aðeins víkja að því að hér hefur verið nefnt að menn telja þetta vera mikið jafnréttistæki og til þess fallið að draga úr launamun kynjanna til dæmis. Það liggur fyrir og hefur komið margoft upp í umræðunni hér undanfarna daga og vikur að þeir sem tala svona um þetta mál hafa jafnframt bent á að launamunur kynjanna er enn mikill. Hann er jafnvel enn sá sami og hann var árið 2000 þegar þetta fyrirkomulag um fæðingarorlof var tekið upp.

Eitthvað hljóta menn að þurfa að endurskoða hugmyndir sínar um launamun kynjanna, hvernig má draga úr honum, hvort menn telji hann vera fyrir hendi og hvort menn telji þetta tæki heppilegast til þess.

Þá var nefnt í ræðu hér áðan að menn veigri sér við að taka orlof vegna lágra — það þurfi að tryggja mönnum tekjur til þess að tryggja að feður taki sér orlof. Í athugasemdum við þetta frumvarp kemur fram að ætla megi að það séu aðrar ástæður en lækkun á hámarksgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði sem hafi orðið til þess að draga úr fjölda þeirra feðra sem hafa tekið sér fæðingarorlof í tilteknum tekjuhópi. Það álit sumra að fjárhæð greiðslna úr sjóðnum hafi bein áhrif á ákvörðun feðra um að taka sér fæðingarorlof umfram mæður er ekkert rannsakað og ekkert rökstutt.

Þetta var um söguna í þessu máli sem menn þekkja auðvitað, en eru kannski einhverjir búnir að gleyma. Þess vegna fannst mér rétt að rifja upp, sérstaklega þetta varðandi kostnaðinn og þá gagnrýni sem kom á sínum tíma fram um þetta.

Í þessu sambandi vil ég líka árétta gagnrýni sem kom fram á þetta fyrirkomulag strax í upphafi, árið 2000, á að það sé ákveðin prósenta sem menn fá úr sjóðnum. Árið 2008 var þessi prósenta lækkuð fyrir þá sem höfðu tekjur umfram tiltekna fjárhæð, 200 þús. kr., en höfð örlítið hærri fyrir þá sem höfðu lægri tekjur. Þannig var komið til móts við það sjónarmið sem sett var fram strax árið 2000, að tekjutengingin hefði verið með öfugum formerkjum og þeir fengu hæstar bætur sem hæstu tekjur höfðu.

Þetta frumvarp varðar aðallega hækkun greiðslna í krónum talið, hækkun á hlutfalli af tekjum. Það er þessi tekjutenging sem ég vék að hérna áðan. Samkvæmt þessu frumvarpi verður lagt til að greiðslur úr sjóðnum miðist í öllum tilvikum við sömu prósentutölu, 80% af tekjum á tilteknu tímabili.

Í þriðja lagi fjallar þetta frumvarp um lengingu á fæðingarorlofinu sem slíku. Í fjórða lagi þá fjallar þetta frumvarp og breytingartillaga sem liggur frammi að einhverju leyti um breytingu á skiptingu á fæðingarorlofi milli foreldra.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki skoðun á þeirri þjóðfélagslegu verkfræði sem frumvarpshöfundar stunda og leggja til grundvallar þessu frumvarpi. Það er auðvitað ekkert annað en þjóðfélagsleg verkfræði sem liggur að baki hugmyndum manna um fæðingarorlof eða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Það er kannski rétt að árétta það hér að það er sitthvað fæðingarorlof og rétturinn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Menn mega ekki misskilja gagnrýni mína á þetta frumvarp eða hugmyndir um lög um fæðingar- og foreldraorlof svo að ég sé andvíg fæðingarorlofi. Þvert á móti tel ég mikilvægt að báðir foreldrar taki fæðingarorlof sjálfu sér og börnum sínum til heilla og vonandi að foreldrar geri það ekki bara á fyrstu mánuðum eða árum barna sinna, heldur reglulega meðan þau ala upp börn sín.

Það vill stundum vera þannig að menn telja þetta samofið, fæðingarorlofið annars vegar og réttinn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hins vegar. Það er það sem ég er að gagnrýna. Það er það að ríkið greiði mönnum sérstaklega fyrir frí vegna samvista við börn sín.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki skoðun á þeirri þjóðfélagslegu verkfræði sem frumvarpshöfundar stunda heldur er ég að vísa til þessarar skiptingar, hvort það eru 4-4-2 eins og kallað er eða 5-5-2 eða hversu há prósentutalan eigi að vera, 80% af tekjum eða 75% af tekjum. Jafnvel eins og í þessu frumvarpi hér er verið að veita mæðrum sem eignast börn í kjölfar glasafrjóvgunar. Þetta eru tæknilegar útfærslur á þessu máli.

Ég vísa til 3. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um rétt foreldra til aukaorlofs ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns. Þetta er virðingarvert sjónarmið og hugmyndin góð. Ég velti því þó fyrir mér hvort ekki hefði verið réttara að setja þessar greiðslur í önnur lög heldur en í lög um fæðingar- og foreldraorlof og vísa til laga um greiðslur til foreldra langveikra barna. Hvort ekki hefði farið betur á því að ákvæði sem þetta ætti heima þar.

Virðulegi forseti. Ég ætla sem sagt ekki að fjalla neitt um þessa þjóðfélagslegu verkfræði, en ég tel rétt að tefla fram sjónarmiði mínu í þessu máli. Séu menn mjög áfram um það að veita foreldrum og börnum fjárhagslegan styrk til samverustunda og hafi menn hagsmuni barnsins í húfi og í fyrirrúmi tel ég rétt að menn hugleiði hvort það sé ekki nær lagi og eðlilegra að réttur til greiðslna úr ríkissjóði fylgi hverju barni. Það sé jafn réttur allra barna, líka barna sem eiga foreldra sem ekki hafa tök á því að taka fæðingarorlof. Þá er ég ekki að vísa til þess ef annað foreldri er veikt eða látið, eins og tekið er á í þessu frumvarpi. Það háttar hins vegar þannig til á ýmsum heimilum að það er ekki í boði fyrir suma foreldra að taka fæðingarorlof. Það er þannig. Ég teldi það vera miklu heiðarlegra, gagnsærra og eðlilegra að þessi réttur fylgdi barni og að hvert barn fengi sömu fjárhæð.

Virðulegi forseti. Frá árinu 2000 hefur orðið til stofnun sem sér um að reikna út þessar bætur til foreldra. 13 manna ríkisstofnun hefur verið komið á fót til þess að halda utan um rekstur á þessu kerfi. Kostnaðurinn við þetta fyrirkomulag er einfaldlega óyfirstíganlegur.

Með þessu frumvarpi fylgir umsögn frá fjármálaráðuneytinu sem, eins og ég nefndi hér í upphafi, vanmat kostnaðinn við upptöku á þessu kerfi stórkostlega á sínum tíma. Einhver reynsla er auðvitað komin á kerfið þannig að ég leyfi mér nú að ætla, og vona a.m.k., að fjárlagaskrifstofa sé nær lagi í sínum útreikningum. Ég ætla þó líka að leyfa mér að gera ráð fyrir því að kostnaðurinn sem skrifstofan nefnir hér sé samt vanmetinn. Hún gerir reyndar ráð fyrir töluverðum kostnaðarauka á næsta ári, en kostnaðaraukinn er allur eftir næsta ár þegar þessi ríkisstjórn er farin, þegar þeir sem leggja þetta frumvarp fram eru í ekki nokkurri stöðu til þess að axla ábyrgð á einu eða neinu. Á það bendir fjárlagaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Ráðuneytið bendir á að þetta frumvarp muni auka útgjöld ríkissjóðs samtals um 3,7 milljarða þegar þessar breytingar hafa allar komið til framkvæmda. Ekki í eitt skipti fyrir öll, nei, þetta eru 3,7 milljarðar á hverju ári, umfram þann kostnað sem er í dag. Allt í allt kostar þetta kerfi 8–12 milljarða á ári hverju. Á það er bent af ráðuneyti fjármála, að þessar tillögur eru ekki einu sinni í samræmi við útgjaldaforsendur í fyrirliggjandi áætlun ríkisstjórnarinnar um ríkisfjármál.

Að því sögðu vil ég að lokum benda á og það er nú kannski kaldhæðni en það eru og verða trúlega blessuð börnin sem verið er að styrkja með þessu lagafrumvarpi sem koma til með að borga brúsann á endanum, borga bæturnar til foreldra sinna seinna meir.