141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[18:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það hefur lengi verið litið til ágætis þess fyrirkomulags sem við búum við varðandi fæðingar- og feðraorlof af hálfu m.a. annarra landa, en ég ætla ekki að fara strax út í það heldur vil ég fyrst og fremst segja að það var undir forustu okkar sjálfstæðismanna og í mikilli samvinnu við Framsóknarflokkinn og þáverandi félagsmálaráðherra Pál Pétursson sem við settum fram frumvarp, eftir mikið samstarf við aðila vinnumarkaðarins, í þá veru að tryggja fæðingar- og feðraorlof eins og það var kallað. Það var ekki síst gert með það í huga að stuðla að auknu jafnrétti kynjanna, reyna að brúa launabilið á milli kynjanna og að sjálfsögðu að líta til hagsmuna og þarfa barnsins.

Það má kannski segja að þetta hafi verið lengi til umræðu, ég þekki náttúrlega bara umræðuna innan míns flokks, en löggjöfin eins og hún lítur út í dag á sér djúpar rætur í umræðu innan flokksins, innan ákveðinna hópa hans. Það er hægt að tiltaka sjálfstæðar konur, en hugmyndafræðina sem löggjöfin byggir á í dag má líka rekja til Friðriks Sophussonar m.a. og síðar Geirs Haardes varðandi það hvernig þetta var byggt upp til að ná því meginmarkmiði að stuðla að auknu jafnrétti. Það gekk eftir. Að hluta til gekk það eftir.

Það er merkilegt að sjá hvernig launamunur kynjanna hefur minnkað í gegnum tíðina, sérstaklega hjá hinu opinbera. En launamunur kynjanna hefur aukist í tíð vinstri stjórnarinnar og ég tel að það standi tvímælalaust í beinu samhengi við það sem hefur gerst hjá ríkisstjórninni, ekki bara hvernig henni hafa verið mislagðar hendur í hinum ýmsu þáttum sem snerta jafnréttismál eða jafnréttisbrot heldur fyrst og fremst að hún hefur markvisst skert fæðingar- og feðraorlofið.

Það er alveg hægt að spyrja: Af hverju þurfti að skera fæðingarorlofið niður? og svara: Það var vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs, en það má líka benda á það sem við sjálfstæðismenn höfum margoft ítrekað að menn hefðu átt að hugsa um afleiðingarnar af því að skerða fæðingarorlofið með þeim hætti sem raunin varð, líka vegna þess að með því náðum við ekki því jafnrétti sem við vildum og markmiðið var að ná, m.a. með frumvarpinu á sínum tíma.

En gott og vel, ríkisstjórnin tók þessa ákvörðun. Hún fór í þessa vegferð og ákvað frekar — og það er hægt að fara út í alls konar samanburð — að fara út í ýmis verkefni sem tiltekin eru m.a. í fjárlagafrumvarpinu, svo sem grænt hagkerfi, Vaðlaheiðargöng og fleira og fleira sem má gagnrýna og það höfum við gert því að allt snýst þetta um ákveðna forgangsröðun.

Það sem ég vil undirstrika með því að koma hingað í ræðustól er að drjúgur hluti Sjálfstæðisflokksins hefur stutt í gegnum tíðina að koma upp öflugu fæðingar- og foreldraorlofi. Af hverju segi ég það? Jú, það var ekki bara undir okkar forustu í ríkisstjórn á árunum 2000–2007 sem unnið var að því heldur var jafnframt sérstakt ákvæði hjá þeirri ríkisstjórn sem tók við 2007, ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, um að hún ætlaði sér að lengja fæðingarorlofið í áföngum á kjörtímabilinu. Það finnst mér skipta svo miklu máli í staðinn fyrir þann popúlisma sem kemur fram í því frumvarpi sem við erum að ræða. Það er knappt til kosninga, það hefur verið skorið massíft niður í fæðingarorlofinu og nú er komið fram með tillögur sem eru mjög göfugar að mínu mati, hugsjónin er til staðar, en það er verið að senda reikninginn inn á ekki bara næsta kjörtímabil heldur þarnæsta kjörtímabil.

Ég tel að það hefði verið betra og farsælla, svo að málið yrði tekið lengra, að ný ríkisstjórn, sama hverjir munu skipa hana, hefði sett inn í sinn stjórnarsáttmála markmið um það hvernig við getum byggt upp fæðingarorlofið að nýju. Miðað við þær hagvaxtarforsendur sem við stöndum frammi fyrir — við eyddum náttúrlega miklum tíma til að sýna fram á það í fjárlagaumræðunni að miðað við framgöngu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum og atvinnusköpun, miðað við framgöngu hennar varðandi rammaáætlun þar sem hún setur hlemm ofan á möguleika okkar til að fara í vatnsaflsvirkjanir til dæmis, höfum við minni möguleika til hagvaxtaraukningar og atvinnusköpunar á næstu árum. Þetta set ég í beint samhengi við það hvernig við ætlum að fjármagna það mikilvæga jafnréttistæki sem foreldraorlofið er og vinstri stjórnin er að vissu leyti búin að eyðileggja. Hún er að reyna í einhverri taugaveiklun korteri fyrir kosningar að redda því sem reddað verður vegna ákvarðana sem hún tók sjálf á kjörtímabilinu.

Ég hef ávallt talað um það og gerði það á sínum tíma þegar við ræddum fæðingarorlofið að mín sýn væri að fæðingarorlofið væri svipað að lengd og það er á Norðurlöndunum, í kringum ár. Ég taldi ekki síður mikilvægt að við gæfum ekki eftir hlutfallið eins og það er í dag. Móðirin fær þrjá mánuði, faðirinn þrjá og þrír mánuðir eru skiptanlegir á milli foreldra. Ég taldi lykilatriði að ekki væri verið að millifæra þá þrjá mánuði sem faðirinn og móðirin eiga yfir á annað hvort kynið því að þá væri jafnréttisvinkillinn og jafnréttistækið farið.

Þess vegna kemur mér það spánskt fyrir sjónir þegar ég hlusta á formann velferðarnefndar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þegar hún segir að þetta sé fyrst og fremst mál til hagsbóta fyrir barnið. Gott og vel, en að auki er þetta jafnréttistæki. Ef þetta væri fyrst og fremst hugsað eingöngu út frá hagsmunum barnsins hefðum við átt að hlusta á sínum tíma á þær raddir sem sögðu: Gott og vel, við höfum bara tólf mánuði, okkur kemur ekki við hvernig fólkið ráðstafar þeim. Þá erum við búin að missa út þá dínamík sem felst í því að ekki er hægt að færa á milli mánuðina sem hvort foreldri hefur.

Um leið og ég segi að við eigum að ræða um það að lengja foreldraorlofið í framtíðinni þá eigum við líka að huga að því hvað það er í foreldraorlofinu sem gerir að verkum að það hefur virkað sem jafnréttistæki. Því spyrjum við sjálfstæðismenn, og ég sé að flutningsmenn minnihlutaálitsins, hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir og Einar K. Guðfinnsson, draga þetta einmitt fram, hvort ekki hefði verið nærtækara að hækka launaþakið að nýju og setja það í forgang vegna þess að ríkissjóður er ekki ofhlaðinn. Það verður erfitt að ná þessu fram nema með mikilli samvinnu og sátt við atvinnulífið. Ríkisstjórnin hefur ekki beinlínis rétt sáttahönd til atvinnulífsins þegar kemur að samstarfi, hvort sem er í þessum málum eða atvinnulífsmálum. Ég hefði talið að menn ættu að meta hvort ekki væri farsælla að taka skrefið í átt til þess að hækka þakið að nýju. Að mínu mati er það algjört lykilatriði að hækka þakið að nýju núna þegar við höfum fengið ákveðna reynslu.

Hingað hafa komið þingmenn úr ýmsum flokkum, m.a. mínum flokki, og sagt að við höfum þurft að hrófla svo mikið við fæðingarorlofinu, það hefði náttúrlega ekki verið rétt að tekjutengja það eða ekki tekjutengja í byrjun. Það kann vel að vera rétt, því reynslan kennir okkur ákveðna hluti. Reynslan hefur meðal annars dregið það fram að tekjuhærri feður taka fæðingarorlof. Þeir feður sem eru tekjulægri eftir skerðingar fara ekki í eins ríkum mæli í fæðingarorlof. Við hljótum að taka tillit til þessa. Þetta er ekki bara ótti við að missa vinnuna. Tekjulágar konur óttast líka að missa vinnuna. Það að við sjáum aukinn launamun kynjanna að nýju undir forustu vinstri stjórnarinnar stendur að mínu mati í beinu samhengi við þessar skerðingar á þakinu, sem og að tekjulægri karlmenn fari í minna mæli í fæðingarorlof.

Við hljótum fyrst að taka tillit til þessa áður en við förum í fallegu framtíðina um lengingu á fæðingarorlofinu. Við viljum að sjálfsögðu lengingu en við þurfum alltaf að spyrja okkur: Höfum við efni á því? Við höfum ekki efni á því ef við ætlum að halda áfram þeirri atvinnusköpunarstefnu sem vinstri stjórnin setur fram því við munum ekki skapa hagvöxt einvörðungu á grundvelli einkaneyslu. Það er bara mjög tímabundið sem slíkur hagvöxtur heldur uppi samfélagi velferðar, jöfnuðar og tækifæra.

Þetta er eins ömurlegt og það er, ég vil svo gjarnan geta sagt já því ég styð eindregið þær tillögur sem hér eru um lenginguna. Ég styð lenginguna, en við verðum að eiga inni fyrir henni. Það er ekki hægt að koma hingað og segja að maður ætli að gera allt fyrir alla, bæði lengja í tólf mánuði og hækka þakið. Ég veit ekki hvern menn eru að plata. Af hverju er ekki hægt að bíða með þetta þar til ný ríkisstjórn tekur ábyrga afstöðu í þessu máli? Við eigum frekar að hækka þakið þannig að við náum til þeirra feðra sem eru hættir núna sökum þess að þakið er of lágt, svo að við náum þeim aftur inn í fæðingarorlof.

Af hverju segi ég þetta? Það er fyrst og fremst út af því að annars stuðlum við að því að vægi jafnréttis verði ekki jafnmikið og það hefur verið á umliðnum missirum og árum. Af því að fæðingarorlofið er jafnréttistæki. Ef menn vilja tala um að það sé ekki jafnréttistæki ætla ég ekki að segja neitt við því, en ég hef ávallt litið á fæðingarorlofið sem tvíþætt mál, annars vegar sem jafnréttistæki og hins vegar til hagsbóta fyrir barnið og rétt þess til að njóta samvista við báða foreldra.

Ég mun að sjálfsögðu styðja hækkunina sem þegar er búið að samþykkja í fjárlögum því ég tel hana vera rétt skref, en ég hefði viljað sjá frekari stefnumótun hvað það varðar. Ég hefði viljað sjá frekari félagsfræðilega stúdíu á því hvaða leiðir eru bestar og eiga það samtal líka við stjórnarandstöðuna en ekki síður við atvinnulífið eins og ég gat um áðan. Það er nokkuð erfitt af hálfu þessarar ríkisstjórnar að eiga samtal við atvinnulífið. Þá værum við með þær leiðir tilbúnar strax í kringum kosningar, bestu leiðirnar til að stuðla að auknu jafnrétti, minnka launamun kynjanna og gæta að hagsmunum barnsins.

Þetta er að vissu leyti virðingarvert plagg en það er þó ekkert annað en kosningaplagg. Það er ekki innstæða fyrir þeim kostnaði sem gera má ráð fyrir að fylgi því eins og það lítur út. Mér finnst það ekki ábyrgt. Það verður bara að segjast eins og er, eins súrt og það er, að við höfum ekki enn þá efni á því að fara í þessa lengingu. Við eigum miklu frekar að reyna að hækka þakið.

Það er hægt að taka umræðu um það hvort við eigum að breyta fyrirkomulaginu. Meiri hlutinn nefndarinnar hefur lagt fram skiptinguna 5-5-2, sem eru fimm mánuðir til konunnar, fimm mánuðir fyrir föðurinn og síðan tveir mánuðir til sameiginlegrar ákvörðunar. Ég hafði alltaf séð fyrir mér 4-4-4, eins og það er kallað — það er eins og við séum að tala hér fótboltamál, en þetta er ekki 4-4-2 heldur 4-4-4 — sem eru fjórir mánuðir fyrir föðurinn, fjórir fyrir móðurina og síðan fjórir sem þau skipta á milli sín. Ég hef einfaldlega þá trú að fólk í dag sé meðvitaðra en það var fyrir tíu árum um mikilvægi þess að skipta þessum þætti nokkuð jafnt á milli sín. Ég hef enn þá þá trú.

Við verðum líka að trúa því að okkur miði áfram varðandi viðhorf fólks til jafnréttismála. Ég er líka um leið svolítið hrædd um að það hafi orðið bakslag á síðustu árum og allar vísbendingar eru í þá veru að það hafi átt sér stað vegna þess hvernig ríkisstjórnin breytti fæðingarorlofinu.

Við megum ekki líta fram hjá því að þegar við setjum fram hástemmd markmið verðum við líka, í ljósi raunsæis og ábyrgðar og þeirrar vonar um að eitthvað breytist til lengri tíma, að segja hlutina eins og þeir eru. Það mun kosta hátt í 16 milljarða að ná þeirri stöðu sem við vorum í á árum áður. Fæðingarorlofið kostaði um 12 milljarða árin 2008 og 2009, það er komið núna niður í kringum 7 milljarða. Það hefur því verið skorið mjög niður. Ef menn ætla að jafna þá stöðu sem var fyrir fimm árum og lengja orlofið mun fæðingarorlofið kosta um 15–16 milljarða. Það verður heildarkostnaðurinn. Þegar við verðum komin þangað í samfélagi okkar þar sem við erum byrjuð að fjölga störfum og líka byrjuð að auka fjárfestingar sem stuðla að auknum hagvexti þá er að sjálfsögðu hægt að taka undir þessi áform, en við verðum að vera raunsæ.

Ég vil lýsa yfir stuðningi mínum við það sem kemur fram í frumvarpinu um einstæða foreldra sem fara í tæknifrjóvgun. Ég held að það skipti máli að komið verði til móts við þá foreldra og þeir njóti svipaðrar stöðu og aðrir foreldrar hvað þetta varðar.

Herra forseti. Þetta er það sem ég vildi sagt hafa. Ég er stolt af því að hafa staðið mjög dyggilega við þetta fyrirkomulag og þingmenn úr öllum flokkum hafa saman byggt það upp og staðið vörð um það fyrirkomulag sem hefur stuðlað að auknu jafnrétti, mannlegra samfélagi og fleiri tækifærum inn í framtíðina fyrir börnin sem þetta snýst að sjálfsögðu um. Það sem hefur verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur að mínu mati truflað þetta kerfi mjög. Það hefur raskað þeirri mynd sem ég hélt að væri sæmileg samstaða um. Nú er verið að reyna að lappa upp á þá mynd á síðustu metrunum fyrir kosningar. Það er að vissu leyti virðingarvert þegar við höfum í huga að við viljum öll sjá lengingu fæðingarorlofs. Við viljum að þakið hækki til þess að ná fram jafnrétti. En það verður að vera sett fram á réttum forsendum. Það á ekki blekkja fólk með því að lofa einhverju sem er síðan ekki innstæða fyrir. Það verður að forgangsraða í þessu eins og öðru, eins sárt og það er.

Að öðru leyti vonast ég til þess að við munum afgreiða þetta mál þannig að við náum á endanum samstöðu um að byggja upp fæðingarorlofskerfi sem við getum staðið vörð um, ekki bara fram að kosningum heldur fram yfir kosningar.