141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[19:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. forseti geti svarað mér því hvenær fjárlög sem hafa verið lögð fram af hálfu vinstri stjórnarinnar hafi staðist. Aldrei. Ekki í eitt einasta sinn hafa fjárlögin sem vinstri stjórnin hefur lagt fram staðist. Það er ekki hægt að hækka um einhverja einn eða tvo milljarða á milli umræðna, heldur er hallinn að aukast trekk í trekk. (Gripið fram í.) Það er blekkingaleikurinn sem við stöndum alltaf frammi fyrir og þess vegna er ég að segja: Menn verða að tala hreint út.

Já, við styðjum þessi markmið. Já, við gerum það. Ég geri það. En ég get ekki farið út og sagt: Já, við höfum líka efni á þessu. Við höfum svo mikið efni á þessu núna og á næsta ári, eftir tvö ár eða eftir þrjú ár. Ég get ekki sagt það af sannfæringu þegar við stöndum frammi fyrir hagvexti sem vinstri stjórnin vill að byggist fyrst og fremst á einkaneyslu en ekki fjármagnssköpun, verðmætasköpun eða slíku. Ég vil því benda hv. þingmanni á þetta.

Þakka skyldi hv. þingmanni. Hér erum við með fæðingarorlofið eins og það var 2008 og 2009. Það hefur hrunið í tíð vinstri stjórnarinnar og takk fyrir að reyna að byggja það upp aftur. Ég mun styðja það fyrir næsta árið, af því að við erum búin að samþykkja fjárlögin hvað það varðar.

Ef það á að spyrja mig hvort maður eigi að gera, lengja fæðingarorlofið eða hækka þakið, þá segi ég: Já, ég vil hækka þakið af því að ég tel fæðingarorlofið vera mikilvægt tæki í jafnréttisbaráttunni. Já, ég segi að það sé jafngilt því varðandi rétt foreldris og barns að umgangast hvort annað. Ef við hefðum bara talað um að fæðingarorlofið ætti ekki að vera jafnréttistæki heldur fyrst og fremst með hagsmuni barnsins að leiðarljósi værum við ekki að tala um það fyrirkomulag sem er núna. Hugmyndafræðin á bak við skiptinguna, 4-4-4 eða 3-3-3 eins og það er í dag, byggir á því að við erum að reyna að ná auknu jafnrétti í landinu. Ef menn vilja ekki nota fæðingarorlofið til þess leggi menn fram tillögu um það að þetta verði bara (Forseti hringir.) 9 mánuðir eða 12 mánuðir og ríkið ætti ekki að skipta sér af því hvernig því yrði skipt á milli hjóna. Ég er andsnúin slíku.