141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[19:06]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er búin að vera hlaupandi í allan dag á milli hinna ýmsu funda um ólík málefni og kem þess vegna mjög seint inn í þessa umræðu og náði því bara rétt blálokunum á ræðu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

Ég vil segja tvennt: Ég held að það sé hvort tveggja í senn mjög mikilvægt að tryggja fæðingar- og foreldraorlof fyrst og fremst í þágu barna í frumbernsku til að þau fái notið aðhlynningar og samveru með foreldrum sínum sem lengst en einnig, eins og hv. þingmaður kemur inn á, sem tæki í jafnréttisbaráttunni. Satt best að segja held ég að þetta tvennt fari saman. Ég held að hagsmunir barnsins fari saman við að það fái notið samvista við báða foreldra, móður og föður og í sumum tilvikum móður og móður og föður og föður.

Mig langaði einfaldlega að spyrja hv. þingmann hversu mikilvægt hún telur að þverpólitísk samstaða sé um gildi fæðingar- og foreldraorlofs og hversu langt og drjúgt það eigi að vera. Ég held nefnilega að það sé mjög mikilvægt að þverpólitísk samstaða sé um það en ekki að það sé bara mál tiltekinna flokka.

Svo langaði mig líka að spyrja hana út í viðhorf hennar hvað varðar rétt barna sem eiga bara eitt löglegt foreldri. Eiga þau rétt á jafnlöngum tíma með foreldri sínu og önnur börn?

Mig langaði að inna hv. þingmann eftir sjónarmiðum hennar í þessum efnum.