141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[19:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er við slík andsvör sem maður hugsar: Af hverju er þetta stundum svona flókið hérna á þingi? Af hverju getum við ekki talað saman? Hv. þingmaður ber til dæmis upp mjög skynsamlega og eðlilega spurningu sem rétt er að svara. Já, ég tel mikilvægara að við náum þverpólitískri samstöðu í þessu mikilvæga máli af því að mér finnst það svo mikilvægt. Þetta er eitt af þeim málum sem hefur verið mér hjartans mál í þingmannstíð minni frá því að ég kom á þing 1999. Ég hef fundið þennan skilning hjá þingmönnum í öllum flokkum, þ.e. mikilvægi þess að ná samstöðu um þetta mál í þágu barnsins en ekki síður í þágu jafnréttisbaráttunnar sem við vorum lengi vel allt of aftarlega á merinni gagnvart.

Ég tek undir með hv. þingmanni, að farsælla sé að við reynum að ná samstöðu, og ég sakna þess að slíkt samtal hafi ekki farið fram. Alla vega hafa fulltrúar okkar í velferðarnefnd ekki upplýst um að samtal þvert á flokka hafi átt sér stað þó að ég viti að vinnan hafi verið ágæt innan nefndarinnar. Hugsanlega var ekkert eftir því leitað að ná samstöðu með okkur. Það er gömul saga og ný. Ég tel einmitt mikilvægt að hagsmunir barnsins og jafnréttisbaráttan fari saman, að fæðingarorlofið verði þetta tæki því að það er í þágu barnsins að hafa tækifæri til að umgangast báða foreldra.

Ég hugsa til lítils stúlkubarns. Þegar það hefur réttinn og skynjar mikilvægi þess að fæðingarorlofið sé fyrir hendi með þeirri uppbyggingu sem er í dag þá verði það eftir 18 eða 20 ár, þegar sú sama stúlka fer út á vinnumarkaðinn, lykillinn að því að hún standi frammi fyrir jöfnum tækifærum á vinnumarkaði gagnvart drengjum sem hafa fram til þessa verið með hærri laun. Þetta er liður í því um leið og við hugsum um barnið. Þess vegna segi ég: Já, það eru hagsmunir barnsins til skemmri tíma og lengri tíma að við byggjum upp öflugt tæki sem (Forseti hringir.) við getum beitt með fæðingarorlofinu hvort sem það er á sviði jafnréttismála eða barnamála.