141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[19:11]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég kem hingað upp til þess að gefa hv. þingmanni tækifæri á að svara seinni spurningu minni sem kom fram áðan.

Svo langar mig líka að segja að það er erfitt að skilja hvernig nokkur geti verið á móti því að lögð sé fram áætlun um hvernig við ætlum að styrkja þetta kerfi, hvernig við ætlum að bæta í rauninni fyrir þær skerðingar sem hafa átt sér stað og ég held að hafi verið mörgum stjórnarliðum mjög sárar og mjög erfiðar vegna þess að þetta er alveg gríðarlega mikilvægt kerfi, ofboðslega dýrmætt, ekki bara fyrir börnin í samfélaginu heldur líka fyrir foreldrana og fyrir jafnréttismálin og þess vegna er einmitt svo jákvætt að sjá fram á þau tímamót að við getum horft aftur til sóknar í þessum málum. Þetta ætti því að mínu mati að vera fagnaðarefni allra sem að þessu koma. Auðvitað veit hv. þingmaður að það var ekki til gamans gert að skerða framlögin sem raun ber vitni, heldur var það gert vegna þess að við horfðum upp á hrunið og afleiðingar þess sem við þurftum að búa við.

Mig langar einfaldlega að ítreka fyrri spurningu mína um rétt einstæðra foreldra og þar með barna sem eiga bara eitt foreldri. Um leið ítreka ég aftur það sem ég sagði hér áðan að ég var því miður fjarverandi á öðrum fundi mestan part ræðu hv. þingmanns. Er hún ekki í grunninn algjörlega sammála því prinsippi að við eigum einmitt að stefna að lengra fæðingarorlofi í þágu barna og foreldra þessa samfélags?