141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[19:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Algjörlega, ég hef haldið margar þingræður um það. Framtíðarsýn mín 2002 og 2003 þegar við vorum að ræða þetta var 12 mánaða fæðingarorlof. Ég ræddi einmitt sérstaklega um skiptinguna 4-4-4. Nú er hún komin í 5-5-2. Þetta er algjörlega mín sýn, það er ekki spurning.

Síðan var spurningin hvaða reynslu við fengjum af þakinu. Við áttuðum okkur á því að þakið var allt of hátt og allt að því ótekjutengt og skilaði ekki þeim árangri sem við sáum fram á í jafnréttismálum. Við þurfum samt að ná í lægri og millitekjustéttarhópana. Þeir sitja greinilega eftir þegar þakið er of lágt. Það veldur mér áhyggjum í jafnréttisbaráttunni og líka í þágu þeirra barna og feðra þeirra sem eru lágtekjumenn eða með meðaltekjur. Þeir sitja eftir núna og taka ekki fæðingarorlof. Ég hefði viljað taka á því fyrst af því að við getum ekki gert allt.

Ég tek að sjálfsögðu undir heildarstefnumótunina og sýnina um 12 mánuði og hef margoft sagt það hér.

Varðandi rétt einstæðra foreldra og líka þeirra sem hafa farið í tæknifrjóvgun, þetta tengist þeim meðal annars, þá styð ég að það skref verði stigið. Ég get hins vegar ekki sagt hvaða áhrif það muni hafa. Við þurfum að fylgjast með því, við þurfum að taka ákveðna félagsfræðilega stúdíu á það hvaða áhrif það hefur á fæðingarorlof sem jafnréttistæki til hagsbóta fyrir barnið o.s.frv. Ég styð það skref sem hv. þingmaður leggur til og mun gera það, það er alveg ótvírætt.

Ég get hins vegar ekki sagt fyrir um reynsluna af þessu. Því ítreka ég að við eigum óhikað að meta reynslu eftir ákveðinn tíma. Margt hefur komið í ljós varðandi fæðingarorlofið sem betur mátti fara í upphafi. Við höfum verið að laga það, sérstaklega á síðari árum, sem sagt 2007 og 2008. Síðan segir ríkisstjórnin okkur núna að hún hafi þurft að fara í þessar skerðingar, sem ég veit að voru sársaukafullar, en ég hefði viljað sjá forgangsraðað með öðrum hætti.