141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[20:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Breytingartillagan er sem sagt frá hv. þingmönnum Eygló Harðardóttur, Unni Brá Konráðsdóttur og Guðmundi Steingrímssyni.

Já, ég get stutt fyrstu þrjár greinar þessa frumvarps sem eru um orðalagsbreytingar og lagfæringar á lögunum en ég get ekki fallist á það að fresta þessum lögum sem taka eiga gildi nú um áramót. Það hafa ekki verið færð fram rök fyrir því. Það var forsenda þess að við stæðum öll saman í velferðarnefnd og hér í þessum þingsal um breytingarnar á barnalögunum að því yrði fylgt eftir að sáttameðferðin tæki gildi. Ríkisstjórnin lætur það ekki birtast í fjárlagafrumvarpinu og hafnar því þar með að nefndir þingsins vinni saman með þessum hætti.

Ég get ekki samþykkt þetta vinnulag. Í þessum lögum sem taka gildi um áramótin eru mikilvæg ákvæði um réttindi barna, foreldra og annarra aðstandenda. Þar eru ákvæði um skilgreiningu á inntakinu á sameiginlegri forsjá og ég held að það séu meiri rök fyrir því að lögin taki gildi en að bíða (Forseti hringir.) með þetta í heild sinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)