141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[20:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Má þá skilja orð hæstv. ráðherra þannig að það hafi engin innstæða verið fyrir því að samþykkja breytinguna á barnalögunum á síðasta þingi?

Frú forseti. Í núgildandi lögum er ákvæði um sáttameðferð. Sýslumenn þekkja þetta ferli og þá er framkvæmdarvaldsins að fylgja því sem Alþingi ákveður hér. Það er þingið sem setur lögin og framkvæmdarvaldið framkvæmir þau. Ef vilji er fyrir hendi er þetta hægt og ég hvet hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina alla til dáða í því efni og vonast til þess að barnalögin taki gildi nú um áramótin. Má þetta vera mönnum til þess lærdóms að ráðuneytin í landinu, framkvæmdarvaldið, hefjist þegar í stað handa að undirbúa lagabreytingartillögur sem afgreiddar eru frá Alþingi og sýni okkur, löggjafarsamkundunni, ekki það virðingarleysi (Forseti hringir.) að framkvæma ekki vilja Alþingis.