141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[21:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í þessari atkvæðagreiðslu gefst okkur færi á að lengja fæðingarorlofið úr níu mánuðum í 12 frá og með árinu 2016, hækka hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi úr 300 þús. kr. á mánuði í 350 þús. kr. á mánuði og draga þar að hluta til baka þær skerðingar sem orðið hafa á síðustu árum. Við munum einnig breyta tekjuskerðingarhlutfalli ef við samþykkjum þetta frumvarp og breytingartillögur þess og síðast en ekki síst munum við veita börnum einhleypra mæðra sem gangast undir tæknifrjóvgun og einhleypra foreldra sem ættleiða börn eða taka í varanlegt fóstur rétt til jafnlangs samverutíma í fæðingarorlofi með foreldrum sínum og öðrum börnum.