141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[21:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að gera breytingartillögu við frumvarpið. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því að fæðingarorlof yrði þannig samsett að faðirinn hefði fjóra mánuði og móðirin fjóra mánuði, og fjórum mánuðum gætu foreldrarnir síðan deilt samkvæmt eigin ákvörðun.

Hér er hins vegar gengið lengra. Hér er tekin sú ákvörðun að faðirinn hafi fimm mánuði, móðirin fimm mánuði og að tveir mánuðir komi síðan til sameiginlegrar ráðstöfunar. Ég tel það óskynsamlegt. Ég tel miklu eðlilegra að búa við það sem frumvarpið gerði ráð fyrir þó að ég telji reyndar að lengingin sé ekki það forgangsverkefni sem við eigum að hafa almennt um Fæðingarorlofssjóð. Ég tel hins vegar það prinsipp sem liggur á bak við frumvarpið mun skynsamlegra fyrir nú utan það að verði þessi breytingartillaga samþykkt mun hún leiða til frekari útgjalda fyrir Fæðingarorlofssjóð.