141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[21:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við sjálfstæðismenn áréttum það að við teljum að það sé mikilvægast núna að reyna að vinna til baka sem mest af þeirri skerðingu sem hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir varðandi Fæðingarorlofssjóðinn. Að því eigum við fyrst og fremst að vinna áður en farið er að taka ákvörðun um það að lengja fæðingarorlofið úr níu mánuðum í 12. Í raun er það þannig að hér erum við að taka ákvörðun um að leggja höfuðáherslu á það að lengja fæðingarorlofið því að frumvarpið tekur ekki til þess með hvaða hætti fjármunir verði auknir að öðru leyti en því að það er í almennum markmiðssetningum. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við mörkum þá stefnu að vinna til baka skerðingarnar sem hæstv. ríkisstjórn beitti sér fyrir.