141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[21:30]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Af því að kerfið er bilað og það koma lítil græn ljós hjá mér vil ég fara í ræðustól og taka af allan vafa um það að ég styð þetta frumvarp og fagna því mjög. Það stendur þá í þingtíðindunum.

Ég tel rétt og tímabært að hefja nú uppbyggingu fæðingarorlofskerfisins á nýjan leik sem við höfum því miður þurft að takmarka útgjöld til undanfarin ár. Mér finnst satt best að segja lágt risið á stjórnarandstæðingum að tala eins og það hafi verið gert af tómri mannvonsku og að sú ákvörðun hafi komið af himni ofan. (Gripið fram í.) Hún er tengd ákveðnum veruleika [Kliður í þingsal.] sem væri kannski meira lítillæti í að viðurkenna og horfast í augu við.

En nú er farið að ára betur, það er búið að taka til í ríkisfjármálunum (Gripið fram í.) þannig að við getum farið að leggja okkur metnaðarfull áform um að lengja og bæta í kerfi af þessu tagi og ég fagna því mjög. Hér stendur sá sem sennilega tók fyrstur allra karlkyns þingmanna feðraorlof fyrir ekkert óskaplega löngum tíma og það voru tvær vikur. Ég óska öllum þeim feðrum, (Forseti hringir.) bæði þingmönnum og öðrum, sem á komandi árum munu njóta góðs af auknum réttindum á þessu sviði innilega til hamingju. (Gripið fram í: Ein … á dag.)