141. löggjafarþing — 61. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[23:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar en nefndin tók málið til umfjöllunar eftir 2. umr. í þinginu.

Nefndin fjallaði um ýmsar athugasemdir og ábendingar sem komu fram við 2. umr. málsins. Meðal annars kom fram í umræðunni að heiti frumvarpsins væri ekki lýsandi fyrir innihald þess þar sem frumvarpið miðaði ekki að því að selja eignarhluti ríkisins heldur miklu fremur að því hvernig sölumeðferð hlutanna yrði háttað ef til sölu kæmi. Sömuleiðis að ekki skyldi seldur meira en 70% eignarhlutur í Landsbanka Íslands.

Einnig kom fram í umræðunni að Alþingi hefði ákveðið að hefja rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Ekki væri ólíklegt að draga mætti nokkurn lærdóm af niðurstöðu þeirrar rannsóknar sem gæti jafnvel haft áhrif á söluferli og meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum í framtíðinni.

Vegna umræðunnar telur minni hlutinn rétt að vekja athygli á því að í athugasemdum við frumvarpið er sérstaklega vitnað til eigendastefnu ríkisins um meðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í henni eru sett skýr markmið með eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum, skipulag og ábyrgð á eignarhaldi ríkisins sem frumvarpið tekur mið af, m.a. um dreifða eignaraðild sem eitt af undirmarkmiðum eigendastefnunnar.

Minni hluti fjárlaganefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í fyrsta lagi að við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Alþingi hefur ályktað að skipa rannsóknarnefnd um einkavæðingu þriggja banka á tímabilinu 1998–2003. Þegar niðurstöður þeirrar rannsóknar liggja fyrir skal fjármála- og efnahagsráðherra endurskoða einstök ákvæði þessara laga til samræmis við ábendingar rannsóknarnefndarinnar ef tilefni þykir til.

Í öðru lagi að fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Undir þetta nefndarálit skrifa Björn Valur Gíslason, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Lúðvík Geirsson og Valgerður Bjarnadóttir.

Virðulegi forseti. Við 2. umr. málsins á þingi kom fram að ekki er sérstaklega getið í frumvarpinu eða greinargerðum þess um hæfi hugsanlegra kaupenda að hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Um slík mál gilda hins vegar lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með breytingum sem á þeim hafa verið gerðar á undanförnum árum. Þar er meðal annars fjallað ítarlega um hæfi eigenda og stjórnenda fjármálafyrirtækja og má þar m.a. vísa til greina 41–49 í fyrrgreindum lögum. Þar segir til dæmis að Fjármálaeftirlitið leggi mat á hvort sá sem hyggist eignast eða auka við virkan eignarhlut sé hæfur til að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis. Skal mat Fjármálaeftirlitsins grundvallast á öllum eftirfarandi atriðum:

Í fyrsta lagi orðspori þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut.

Í öðru lagi orðspori og reynslu þess sem mun veita fjármálafyrirtækinu forstöðu komi til hinna fyrirhuguðu kaupa eða aukningar eignarhlutar.

Í þriðja lagi fjárhagslegu heilbrigði þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækinu, einkum með tilliti til þess reksturs sem fjármálafyrirtækið hefur eða mun hafa með höndum.

Það er því rétt að vísa til framangreindra laga nr. 161/2002, með áorðnum breytingum, í þessu sambandi frekar en að færa slíkan texta í lagagreinar annarra laga, m.a. í því frumvarpi sem hér um ræðir, sem kann jafnvel að skapa meiri vandræði en reynt er að leysa.

Virðulegi forseti. Ég mæli sömuleiðis fyrir breytingartillögu við 1. gr. frumvarpsins þannig að fyrsti málsliður 1. gr. orðist svo:

Ráðherra er heimilt að selja að öllu leyti eða að hluta eftirtalda eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, að fenginni heimild í fjárlögum og fengnum tillögum frá Bankasýslu ríkisins skv. i- og j-lið 4. gr. laga um Bankasýslu ríkisins.

Hér er kveðið á um það sem ekki er í frumvarpinu, að heimild skuli fengin í fjárlögum fyrir því að selja eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum.