141. löggjafarþing — 61. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[23:35]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram eina breytingartillögu við þetta frumvarp og í þeirri breytingartillögu eru breytingar á frumvarpinu sem eiga að tryggja að ákvörðunarvaldið um sölu sé hjá Alþingi, að eignarhlutir fjármálafyrirtækja verði ekki seldir undir verðmati og líka að FME fái það hlutverk að meta hæfi tilboðsgjafa til að eiga fjármálafyrirtæki áður en ákvörðun um sölu er tekin. Að síðustu er ákvæði sem kveður á um að ekki megi greiða fyrir eignarhlut með aflandskrónum.

Frú forseti. Ég lagði fram þessar breytingar til að meiri hlutinn gæti kynnt sér þær og jafnvel tekið til greina. Það var að hluta gert. Hv. formaður fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu þar sem verið er að afnema valdaafsal Alþingis. Það er von mín að þingheimur samþykki þá breytingartillögu en ég mun falla frá breytingartillögum mínum þar sem frumvarpið er þrátt fyrir þessar tillögur þannig úr garði gert að það kemur ekki í veg fyrir óbeint eignarhald vogunarsjóða á bönkum.