141. löggjafarþing — 61. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[23:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Sú fullyrðing að bankarnir hafi verið afhentir er auðvitað ekki svaraverð. Það vita allir sem fylgdust með því söluferli að það var á forræði einkavæðingarnefndar og að sjálfsögðu var leitað eftir hæstu tilboðum og það ferli hefur fengið skoðun hjá Ríkisendurskoðun sem gerði engar alvarlegar efnislegar athugasemdir.

Það sem er athyglisvert er að nákvæmlega það fyrirkomulag sem þá var viðhaft hefði gengið mjög vel upp innan þess lagaramma sem stjórnarmeirihlutinn er hér að mæla fyrir. Innan hans hefði verið hægt að haga sér nákvæmlega eins og þá var gert, þ.e. að leita tilboðs, sækjast eftir hæsta verði o.s.frv. og leiða málið áfram af viðkomandi ráðuneyti. Hér er í raun og veru af hálfu meiri hlutans verið að mæla fyrir lögfestingu fyrirkomulags sem áður var viðhaft.

Þegar spurt er hvað Sjálfstæðisflokkurinn hafi fram að færa á þessu stigi kom ég aðeins inn á það í framsögu minni áðan. Ég tel mjög mikilvægt þegar eignarhlutir ríkisins í bönkunum verða seldir að það verði gert á þeim tíma þegar hæst verð fæst.

Í öðru lagi finnst mér við eiga eftir að klára umræðuna um hvað er skynsamlegt og nauðsynlegt að ríkið fari með stóran eignarhlut í Landsbankanum.

Í þriðja lagi finnst mér ótímabært að ræða um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, og eftir atvikum Arion banka, meðan við vitum ekki einu sinni hverjir meðeigendurnir eru. Stóra verkefnið þar er að finna alvöru eigendur að þeim bönkum en ekki að klára löggjöf um hvenær og hvernig ríkið á að losa sig við sinn eignarhlut.