141. löggjafarþing — 61. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[23:48]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af umræðunni um frumvarp til laga um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum má velta upp spurningu um hvort það væri ekki ástæða til þess að nota eitthvað af þessum 30 milljónum sem við erum að setja í sáttameðferð í barnalögunum í að tryggja okkur þingmönnum hér smá sáttameðferð.

Mín afstaða til þessa máls er sú að ég tel að við höfum öll lært eitthvað af því sem hefur gengið á, bæði í hinni fyrri og seinni einkavæðingu. Þess vegna er þetta mál hér fram komið.

Það sem ég vil taka fram varðandi þær breytingartillögur sem hv. þm. Björn Valur Gíslason og Lilja Mósesdóttir hafa hér talað fyrir er að ég hef í hyggju að styðja þá tillögu sem er svohljóðandi:

„Ráðherra er heimilt að selja að öllu leyti eða að hluta eftirtalda eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, að fenginni heimild í fjárlögum og fengnum tillögum frá Bankasýslu ríkisins skv. i- og j-lið 4. gr. laga um Bankasýslu ríkisins.“

Ég ætla aðeins að fá að rökstyðja hér, virðulegi forseti, af hverju ég tel rétt að styðja þetta.

Það sem kemur hérna nýtt inn er að það stendur „að fenginni heimild í fjárlögum“. Þetta þýðir að til þess að sölumeðferð geti tekið gildi þarf að vera um hana ákvæði í fjárlögum, sem fara í gegnum þrjár umræður hér á Alþingi. Það þarf sem sagt að vera heimildarákvæði í 6. gr. fjárlaganna til að lögin geti virkað. Við þingmenn munum þá fá næg tækifæri til þess að tjá okkur um söluna og sölumeðferðina þegar þetta kemur inn í gegnum fjárlögin.

Það sem ég vil minna þingmenn á og mig sjálfa líka er að ég held ég hafi setið í alla vega eitt eða tvö ár á þingi þegar ég virkilega áttaði mig á því hvers konar heimildarákvæði eru í 6. gr. Ég hel það sé mjög brýnt að við ræðum einmitt þær ákvarðanir sem við tökum með því að setja inn heimildarákvæði í 6. gr. þar sem við heimilum sölu á eignum ríkisins.

Nýlega var samþykkt í fjárlögum heimildarákvæði til þess að selja eignarhluti ríkisins í sparisjóðunum, sem ég held að séu fimm eða sex talsins. Með þessari samþykkt verður alveg á hreinu að Bankasýslan mun geta hafið þetta ferli og ráðherra hefur heimild til þess að selja eignarhlutina í sparisjóðunum. Það er hins vegar ekki heimildarákvæði hvað varðar eignarhlutina í bönkunum, þannig að ef fara ætti í það þyrfti það að koma inn í gegnum fjárlögin.

Þó að við vitum að það sé oft mikið annað sem við erum að ræða í fjárlögunum, þá er það okkar að skoða málið og ræða það hér í þingsal og í nefndum þingsins hvort við teljum að það sé rétt að standa að þessu.

Ég tel hins vegar rétt að sitja hjá varðandi breytingartillögu Lilju Mósesdóttur og (Gripið fram í.) — þá kemur hér fram að það er verið að draga hana til baka. Það sem ég vildi vísa til er að það hefur komið fram í vinnu efnahags- og viðskiptanefndar að það gætu hugsanlega verið meiri hagsmunir fyrir íslenska þjóðarbúið að Íslandsbanki og Arion banki yrðu seldir fyrir tiltölulega lágt verð. Það er vegna þess að íslenska ríkið er minnihlutaeigandi í þessum bönkum. Það eru erlendir kröfuhafar sem eiga meiri hlutann í þeim og það þarf að greiða þá fjármuni út héðan frá Íslandi og við eigum einfaldlega mjög takmarkaðan gjaldeyri til þess.

Hér skiptir því verulega miklu máli að skoða heildarhagsmunina. Það sem er að koma fram í þegar samþykktum breytingartillögum varðandi samráð við Seðlabanka Íslands og síðan líka í lögskýringu sem verður þegar verður búið að samþykkja þetta frumvarp, er mikilvægi þess að skoða þá líka út frá hæfi og gera einfaldlega þá kröfu, líka til okkar sjálfra, að það fólk sem við ráðum í Fjármálaeftirlitið geti staðið fast á sínu. Þegar eru komin tvö dæmi um að verið var að fara í kringum hæfisreglurnar sem finnast í lögum um fjármálafyrirtæki, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson nefndi hér. Þess vegna er svo mikilvægt að staðið sé fast á þessu. Það er okkar hlutverk fyrst og fremst að gæta að hag íslenska þjóðarbúsins og vinna fyrir umbjóðendur okkar sem eru íslenskir kjósendur eða Íslendingar.

Hvað annað varðar og málið í heild tel ég rétt að sitja hjá.