141. löggjafarþing — 61. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[23:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég sagði var það að íslenska ríkið er minnihlutaeigandi í Arion banka og Íslandsbanka. Í augnablikinu væru því mestir hagsmunir fyrir íslenska ríkið fólgnir í að tryggja að þeir sem eru meirihlutaeigendur að þessum bönkum fái sem allra lægst verð fyrir þá, til þess að draga úr því fjármagni sem fer inn í þrotabúin og við munum þurfa að greiða síðan út í erlendum gjaldeyri. Það var það sem ég sagði.

Það kemur alveg skýrt fram í þessu frumvarpi, og hefur komið fram í skýrslu sem þáverandi fjármálaráðherra lagði hér fram, að það eru kaupréttarákvæði inni í þeim uppgjörssamningum sem fóru fram á milli gömlu og nýju bankanna og íslenska ríkisins. Þar er t.d. einmitt kaupréttur hjá meirihlutaeigendunum á eignarhluti ríkisins, eins og ég hef skilið þetta.