141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[00:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég dirfðist að ætla að Sjálfstæðisflokkurinn vildi gefa bankana aftur vegna þess að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sagðist vilja fella þessi lög, þetta frumvarp, og ekki yrðu sett nein lög um þetta. Það var nú bara ástæðan fyrir því. Hvernig á að túlka það, hvernig í ósköpunum á að túlka það á annan veg en þann að menn vilji þá fara sömu leiðina og þeir voru vanir að fara? Það endaði nú ekkert sérstaklega vel ef ég man rétt.

Breytingartillögur út í hið óendanlega, kallar hv. þm. Kristján Þór Júlíusson þær þrjár breytingartillögur sem gerðar hafa verið á frumvarpinu eftir þær umræður sem hér hafa farið fram, eftir meðferð í fjárlaganefnd og umfjöllun þar, eftir að hafa komið til móts við þær gagnrýnisraddir, þær athugasemdir og þær ábendingar sem komu fram í umræðunum. Er óeðlilegt að gera það? Er óeðlilegt að taka tillit til athugasemda af því tagi — og breytingatillöguflóð upp á þrjár breytingartillögur?

Verði það til þess að þingmenn sætti sig betur við frumvarpið er það þá ekki til góðs eða er það til ills? Ég hefði haldið að hið fyrrnefnda væri þá ofan á. Ég auglýsi enn og aftur eftir athugasemdum Sjálfstæðisflokksins. Ég er reyndar með blað hér, það er ekkert á því, ekki neitt, ekki nokkur skapaður hlutur, það eru auð blöð. Það er tillaga Sjálfstæðisflokksins í þessum málum.