141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[00:03]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég býst við að hv. þm. Mörður Árnason komi hér í fróðlega ræðu og verði honum að góðu með það.

Þegar hv. þm. Björn Valur Gíslason lýsir því yfir að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekki selja þessa banka og leggur út af orðum formanns Sjálfstæðisflokksins á þann veg sem hann gerði hér í tómum og hreinum útúrsnúningi neitar hann, hv. formaður fjárlaganefndar, að taka þá gagnrýni sem sett er fram á málið alvarlega, sem hann gerir sjálfur. Ég hef margoft bent á að í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar — eins og hann var skipaður þegar málið var tekið út — kemur fram að æskilegt sé að draga einhvern lærdóm af þeirri vinnu sem Alþingi setti fram. Og hvers vegna í ósköpunum, þegar fyrir liggur í yfirlýsingum frá hæstv. fjármálaráðherra að ekki standi til að selja neina hluti í þessu, treystir stjórnarmeirihlutinn sér ekki til að bíða niðurstöðu þeirrar vinnu sem Alþingi hefur sett í gang? Það er alveg með ólíkindum að menn treysti sér ekki til þess.