141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[00:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Maður áttar sig ekki alveg á því hvort hv. þm. Björn Valur Gíslason er að grínast í þeim ræðum sem hann hefur flutt hér í kvöld. Hann talar í fullri alvöru um að í fyrri einkavæðingum hafi undirbúningur verið ónógur. Hv. þingmaður er að vísa til þess og leggur til að við klárum frumvarp sem verið var að taka efnislega umræðu um hér í dag. Liggur einhver skýrsla til grundvallar, einhverjar tillögur, einhverjar ígrundaðar? Nei.

Hv. þingmaður sagði hér í dag að ekki væri verið að veita ráðherra heimild, hann sagði það bara hátt og skýrt. Samt sem áður er hann með tillögu um það núna, ef ég skil hann rétt, að þinginu verði gert skylt að veita heimildina, taka ákvörðunina. Hann er að breyta því og er þá væntanlega að tala gegn því og koma með tillögu gegn því sem hann sagði í dag.

Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson fór ágætlega yfir þessa nýju einkavæðingu sem er miklu stærri en sú gamla sem vísað var til. En það er ekki eina einkavæðingin sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir. Ég minni á einkavæðinguna á VESTIA-fyrirtækjunum. Ég held að það sé einsdæmi í hinum vestræna heimi að fyrirtæki séu einkavædd og menn viti ekki hver verðmiðinn á þeim er. Það hefur aldrei fengist uppgefið, virðulegi forseti, þátt fyrir síendurteknar fyrirspurnir.

Hér var sett sérstök stofnun af stað, Bankasýslan, sem átti að hafa eftirlit með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Hæstv. ríkisstjórn ákvað bara að sleppa því þegar henni hentaði. Niðurstaðan varð gríðarlegur kostnaður, virðulegi forseti, fyrir skattgreiðendur.

Af því að menn eru hér að tala um vönduð vinnubrögð vil ég vekja athygli á því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki veitt álit sitt á þessu. Það hefur þó aðeins verið rætt í nefndinni. Ég vil biðja hv. þingmann að hafa í huga, ef menn ætla að reyna að flýta sér í þessum málum, að fram kom í nefndinni í dag, varðandi verðhugmyndir sem menn eru að ræða í sambandi við einkavæðingu banka í dag, að bankar eru nú seldir undir bókvirði í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þær verðhugmyndir sem hafa verið uppi hafa verið 60–70 aurar á hverja bókfærða krónu. Hv. þingmaður talar um að elsta einkavæðingin hafi verið gjöf og afhending. Þar var verðið 160–170 aurar (Gripið fram í.) á bókfærða krónu. Þetta eru upplýsingar sem komu fram í hv. efnahags- og viðskiptanefnd í dag.

Virðulegi forseti. Ég var að vonast til þess að í þessu máli, eins og í öðrum mikilvægum málum, væri hægt að ræða málefnalega um hluti, sem komið hefur verið inn á hér, t.d. dreifða eignaraðild og annað slíkt. Sömuleiðis um það hvernig við getum komið í veg fyrir, hvort sem bankarnir eru í ríkiseigu eða einkaeigu, að þeir séu í fanginu á skattgreiðendunum. Miðað við það kerfi sem við erum með í dag, innstæðukerfi og annað slíkt, bera skattgreiðendur því miður allt of mikla ábyrgð á bönkunum, beint og óbeint. Það er það sem hefur komið okkur Íslendingum í koll og þeim þjóðum sem við berum okkur saman við.