141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[00:12]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil bara kom inn í þingtíðindin nokkrum atriðum vegna hluta sem sagðir hafa verið hér í umræðunni.

Í fyrsta lagi: Hvernig skyldi standa á því að íslenska ríkið á lítinn minni hluta í Arion banka og Íslandsbanka, 13% ef ég man rétt í hinum fyrri og 5–6% í hinum síðari? Jú, það er af því að íslenska ríkið lagði við stofnun þessara banka inn lágmarksfé sem þarf til að stofna fjármálafyrirtæki á grundvelli neyðarlaganna haustið 2008. Það voru rétt um 900 millj. kr. Þessar 900 millj. kr. standa nú fyrir þessum 13% eignarhlut í öðrum bankanum og 5% í hinum. Með öðrum orðum: Ríkið hefur ekki látið af sinni hendi eina einustu krónu sem það yfir höfuð nokkurn tíma setti inn í þessa banka. Það hefur með öðrum orðum ekki einkavætt neitt.

Það var síðan búinn til efnahagur og eigið fé fyrir þessa banka með samningum við kröfuhafana á grundvelli neyðarlaganna líka, því að það var í beinu framhaldi af yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á bönkunum og stofnun hinna nýju og kveðið á um að síðan skyldi samið um greiðslur á milli þeirra þannig að sannvirði fengist fyrir þau verðmæti sem flutt voru yfir á móti innstæðum.

Þetta er veruleiki þessa máls, þetta er alveg kristaltært og mjög einfalt. Ríkið leggur inn lágmarksstofnfé til að þessir bankar verði til og það á það lágmarks eigið fé enn þá og það stendur fyrir þessum hluta af eigin fé bankanna í dag eða eigninni í bönkunum í dag.

Í öðru lagi er mjög mikilvægt að menn hafi í huga, þegar við ræðum þetta frumvarp nú, lagaramma um meðferð sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, bönkum og sparisjóðum, ef til hennar kemur, að sú sala fer fram innan ramma núverandi löggjafar um íslenska fjármálamarkaði. Hún er í grundvallaratriðum og í veigamiklum atriðum mjög breytt frá því sem hún var við hrun, frá því sem hún var 2002, frá því sem hún var 1998.

Verulegur hluti þeirra breytinga byggir á ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og hér voru flutt frumvörp af þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra og -ráðherrum, á árunum 2010 og 2011, sem tóku á og færðu í lög ákvæði til að koma í veg fyrir margt af því sem menn sáu meðal annars í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að hafði stórkostlega misfarist í gamla bankakerfinu. Þar má nefna að stöðva lánveitingar banka til eigenda sinna og setja mjög strangar skorður við öllu slíku. Í öðru lagi meðferð og ákvæði sem tengjast svonefndum virkum eignarhlut í bönkum, í þriðja lagi krosseignatengslum, í fjórða lagi hæfi stjórnarmanna.

Hér er frumvarp á borðum þingmanna nú um að upplýsa í miklu ríkari mæli um eignarhluti í bönkum en áður hefur verið gert í lögum, t.d. þannig að alltaf sé upplýst um alla sem eiga meira en 1%. Jafnframt er tekið á því með breytingum, og er að hluta til þegar búið að gera, að menn geti ekki falið virkan eða ráðandi eignarhlut í skjóli tengsla eigenda í fjármálafyrirtæki. Þetta er held ég óumflýjanlegt að nefna bara til þess að umræðunni ljúki ekki á þeim forsendum sem mér fannst bera á í orðaskiptum manna áðan, t.d. hv. þm. Bjarna Benediktssonar og Björns Vals Gíslasonar, að við erum að tala um þessa hluti í samhengi við óbreytta fjármálalöggjöf frá því um aldamótin síðustu eða svo. Það er auðvitað langur vegur frá því.

Þetta, frú forseti, finnst mér óumflýjanlegt að fari nú hér inn í þingtíðindin, þó að ég hafi vissar efasemdir um að ég upplýsi eða kveiki ljósin hjá þingmönnum, þreyttum þingmönnum, á þessu síðkvöldi í umræðunni eins og hún stendur nú. En þetta er þó að minnsta kosti komið inn í þingtíðindin.